136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

visthönnun vöru sem notar orku.

335. mál
[16:23]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þetta er mál sem er nokkuð dæmigert fyrir tilskipanir frá Evrópusambandinu. Það gengur út á að samræma reglur og koma í veg fyrir að hér sé markaður fyrir vöru sem ekki er heimilt að nota á hinu Evrópska efnahagssvæði. Eins og hæstv. ráðherra sagði framleiðum við ekki mikið af svona vörum en engu að síður þurfum við að innleiða þessar tilskipanir og þekkjum það ferli.

Af því að þetta mál gengur út á að draga úr orkunotkun vil ég taka undir með hæstv. ráðherra, sem hann kom inn á í lokaorðum sínum, að eitt af því sem skiptir máli er að spara orkuna. Til eru tölur um það og hefur verið reiknað út hvað hægt er að ná gríðarlega miklum árangri varðandi sparnað á orku ef fólk þekkir til mála og gerir sér grein fyrir hvar sparnaðurinn getur legið og hvað atriði sem virðast lítil inni á heimilunum geta reynst dýr þegar saman er talið.

Það sem ég vildi koma að, hæstv. forseti, í þessari stuttu ræðu minni er hvort við Íslendingar getum breytt þeim hugsunarhætti sem hefur verið nokkuð ríkjandi hjá okkur, að ekki sé hægt að ná árangri við að spara orku. Einhvern tíma í minni tíð var sett á laggirnar setur á Akureyri sem fjallar um orkusparnað, Orkusetur, sem er starfandi þar og vinnur að ágætismálum. Ég óttast að það sé kannski ekki í nægilega miklum mæli sem þær upplýsingar sem þar er að finna og þær rannsóknir sem þar hafa verið gerðar ná út til fólksins.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra í lokin hvort eitthvað sé á döfinni í sambandi við orkusparnað almennt í landinu og hvort hann hafi upplýsingar og áform um eitthvað í þeim dúr. Kannski hefur nú þegar verið unnið með það í huga að reyna að spara orkunotkun heimilanna sem alþjóð veit ekki um.

Þetta er erindi mitt hingað upp, hæstv. forseti. Það væri hægt að segja mjög margt í tengslum við þetta mál sem varðar orkuna en ég ætla að standast þá freistingu núna. Það er þetta sem mér er ofarlega í huga, að draga almennt úr orkunotkun ef hægt er.