136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

innköllun íslenskra aflaheimilda.

98. mál
[17:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi heimildir Fiskistofu og þær stífu reglur sem eru í gangi í dag reikna ég með því að menn mundu breyta þeim reglum í kjölfar slíkrar endurskoðunar sem þingsályktunartillaga mín og líka þingsályktunartillaga hv. þingmanna Frjálslynda flokksins ganga út frá, menn breyta að sjálfsögðu slíkum reglum. Varðandi brottkastið er búið að setja inn reglur um það að menn geti komið með ákveðið magn af fiski að landi, sem er þá eign Fiskistofu, þannig að búið er að gera heilmikið en auðvitað þarf að gera miklu meira í því að laga það.

Varðandi það hvað menn eru að borga mikið fyrir kvótann er það dálítið merkilegt sem er að gerast í kerfinu. Ég skrifaði grein um það fyrir tíu árum, held ég. Ég spurði: Hvers vegna vill útgerðin ekki græða? Ég spurði að því. Ég spurði: Af hverju leigir stórt útgerðarfyrirtæki, eins og Grandi var þá, ekki frá sér kvótann eins og það má, helminginn af honum? (Gripið fram í.) Það mundi græða fimm sinnum meira. Af hverju vill það ekki græða? Ég hef ekki fengið svar við því. Ég hef ekki fengið svar við því af hverju útgerðin vill ekki græða eins og hún hefði getað gert allan tímann með því að leigja frá sér kvótann.

Ef hún hefði leigt frá sér kvótann, hvað hefði það haft í för með sér? Kvótaverðið hefði lækkað allverulega. Þá hefði kannski komið í ljós að verðinu er haldið uppi, það skyldi nú ekki vera að verðinu hafi verið haldið uppi til þess að eiga andlag fyrir veð svo að hægt sé að veðsetja háar eignir?

Ég hef ekki enn fengið svar við þessari grein, hún hét: „Hvers vegna vill útgerðin ekki græða?“ Ég held að þarna sé komið ákveðið vandamál, það er náttúrlega fáránlegt að menn séu að kaupa og selja kvóta á 200 kr. kílóið þegar verð fyrir veiddan fisk er rétt aðeins hærra á markaði.