136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

111. mál
[18:05]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, þar sem ég er 1. flutningsmaður. En auk mín flytja málið hv. þm. Samfylkingarinnar Guðbjartur Hannesson, Ásta R. Jóhannesdóttir og Ellert B. Schram.

Í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að ný málsgrein bætist við 51. gr. laganna, svohljóðandi:

„Við kjör í stjórn skal tryggt að í stjórninni sitji sem næst jafnmargar konur og karlar.“

Nú er það þannig, frú forseti, að nokkuð er um liðið síðan ég lagði þetta mál fram og ætlaði að ræða hér á hv. Alþingi og veit að ýmsir hv. þingmenn hugðust taka til máls við umræðuna. En þegar ég lít yfir salinn sýnist mér að ekki séu miklar líkur á því að margir taki til máls. (Gripið fram í: Það er einn þingflokkur hér.) En það er einn heill hv. þingflokkur staddur í salnum. Það er rétt. Þannig að það er aldrei að vita nema hv. þingmenn og þingflokkur frjálslyndra eins og hann leggur sig muni blanda sér í málin um kvóta í stjórnum fjármálafyrirtækja. Nógu mikið var rætt um kvótamál almennt hér áðan.

Þetta mál gengur út á það, frú forseti, að tryggja hlut kynjanna í stjórnar- og áhrifastöðum fjármálafyrirtækja. Ég held að atburðir síðustu vikna hafi sýnt að þörf er á nýrri nálgun og hugsun við stjórnun fjármálafyrirtækja á Íslandi.

Lengi hefur verið rætt um lögfestingu á jöfnun kynjahlutfalls í stjórnum fjármálafyrirtækja og um það eru mjög skiptar skoðanir. Norðmenn og ýmsar aðrar þjóðir hafa t.d. farið þá leið að lögfesta hlutfallið til að tryggja jafnræði kynja í stjórnum fjármálafyrirtækja. Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að jafna kynjahlutfallið í stjórnum opinberra hlutafélaga.

Í nýlegum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram sú regla að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Sama regla gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélög eru aðaleigandi að. Enn fremur er í 1. mgr. 63 gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, kveðið á um að við kjör í stjórn opinbers hlutafélags skuli tryggt að í stjórninni sitji sem næst jafnmargar konur og karlar.

Nú þegar stærstu bankar landsins verða í aðaleigu ríkisins og hlutfall kynjanna í stjórn þeirra þarf að vera sem jafnast — ekki minna en 40% í samræmi við jafnréttislög — er eðlilegt að þessi regla eigi við um öll fjármálafyrirtæki landsins. Með breytingum samkvæmt frumvarpinu væri tryggt að hlutur kynjanna í stjórn fjármálafyrirtækja yrði eins jafn og kostur er á, en orðalagið „sem næst jafnmargar konur og karlar“ felur í sér að þar sem fjöldi stjórnarmanna er almennt oddatala, oftast þrír, fimm eða sjö, skuli hlutfallið vera eins jafnt og verið getur á þeim forsendum. Er þetta ekki hvað síst mikilvægt nú eftir þær hræringar sem orðið hafa á fjármálamarkaði og þar sem búast má við auknu atvinnuleysi í þessum geira á næstu missirum. Ljóst er að fram til þessa hafa konur ekki átt greiðan aðgang að stjórnum banka eða fjármálafyrirtækja. Er það miður, ekki síst þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á fjárhagslegan ávinning fyrirtækja af því að auka hlutfall kvenna í stjórnum. Hið sama á reyndar við um stjórnunarstöður og hlutdeild kvenna þar. Því er enn brýnna en áður að huga að jafnrétti á vinnumarkaði og þá ekki hvað síst með tilliti til aðgangs að stjórnunar- og ábyrgðarstöðum. Að auki er afar mikilvægt að stjórnir fjármálafyrirtækja séu þannig samsettar að gætt sé að fjölbreytileika, þar sem um er að ræða fjárvörslumenn almennings. Atburðir síðustu daga, vikna og mánaða sýna að allur almenningur getur staðið og fallið með svona fyrirtækjum.

Ég vonast til þess að góðar umræður verði um málið. Ég sé að heldur hefur fjölgað hér í þingsalnum frá því að ég hóf mál mitt og á ég von á því að fá góðan stuðning við þessari tillögu sem nú gengur til nefndar og getur vonandi, ef vel er haldið á spöðum, komið aftur til þingsins og orðið að lögum. Hver veit?