136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

111. mál
[18:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar til að ræða stuttlega það mál sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefur nú mælt fyrir og varðar breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. En þar er gert ráð fyrir því að við kjör í stjórnir fjármálafyrirtækja og þeirra fyrirtækja sem heyra undir lög um fjármálafyrirtæki frá 2002 skuli tryggt að í stjórninni sitji sem næst jafnmargar konur og karlar.

Ég vil strax lýsa því yfir að ég er sammála því markmiði sem sett er fram með frumvarpinu. Ég tel mjög þýðingarmikið, ef svo má segja, að jafnréttið haldi innreið sína í þessi vé sem stjórnir fjármálafyrirtækja eru og hafa verið. Reyndar er það svo að í nýrri stjórn Kaupþings banka sitja bara konur, ef ég man rétt, og er það nýlunda í stjórn fjármálafyrirtækis hér á landi. En kannski má segja að í ríkisbönkunum eða bönkunum sem nú eru orðnir ríkisbankar séu tiltölulega hæg heimatökin hvað það snertir, einn og sami eigandinn, það er ríkið, á að geta tryggt að eins góð skipting sé á milli kynja í stjórnum og unnt er. Og þegar bankaráð ríkisbankanna þriggja eru tekin saman hygg ég að það sé nokkuð góð dreifing milli kynja.

En það er ekki almenna reglan og hefur alls ekki verið og eins og kom fram í máli hv. flutningsmanns vekja þeir síðustu atburðir sem hér hafa átt sér stað á fjármálamarkaði og í bankastarfsemi okkur kannski til umhugsunar um hvort ekki sé bæði löngu tímabært og brýnt að tryggja að bæði kynin séu vel sett innan stjórna þessara fyrirtækja og gert sé ráð fyrir að hvort kyn um sig eigi að minnsta kosti 40% hlutdeild í stjórnum fyrirtækjanna.

Nú má vel velta því fyrir sér hvort við ættum að ganga lengra en þetta frumvarp gerir ráð fyrir, því hér er talað um að tryggt skuli að í stjórnum sitji sem næst jafnmargar konur og karlar. Norðmenn hafa t.d. gengið mun lengra og sett ákveðin skilyrði fyrir því að í öllum fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöll skuli vera að minnsta kosti 40% hlutdeild hvors kyns um sig í stjórnum. Þar var beitt ákveðnum viðurlögum, nefnilega þeim að sagt var berum orðum að ef fyrirtækin hefðu ekki uppfyllt þetta ákvæði laganna fyrir tiltekinn aðlögunartíma sem var gefinn væri skylt að leysa upp viðkomandi fyrirtæki eða hlutafélag.

Það er auðvitað býsna harkaleg aðgerð í sjálfu sér. En eftir því sem ég best veit brást allur markaðurinn í Noregi vel við lagasetningunni og gerði ráðstafanir til að koma til móts við hana í öllum meginatriðum. Ég hygg að þar í landi gangi menn lengra en að tala bara um fyrirtæki sem skráð eru á markað, hlutafélög, heldur gildi þessar reglur almennt.

Ég tel sem sagt að mikið álitamál sé hvort hér ætti jafnvel að ganga lengra en þetta frumvarp gerir ráð fyrir og mér finnst eðlilegt að þingnefndin sem fær málið til umfjöllunar velti þeim spurningum upp og fái upplýsingar um hvernig þetta hefur verið framkvæmt annars staðar og hvaða reynsla er komin á lagasetninguna eða svipaða lagasetningar, eins og t.d. í Noregi, þar sem við vitum að hefur verið gengið mjög langt.

Einnig held ég að þingnefndin sem fær þetta til meðferðar þurfi að skoða hvort ekki þurfi að setja einhvers konar viðurlög. Eftir því sem mér sýnist er hér ekki gert ráð fyrir sérstökum viðurlögum við því ef þessi markmið laganna nást ekki fram, ekki er tekið fram hvort menn fái einhvern aðlögunartíma til að fullnægja lagaákvæðinu eða hvernig tryggja eigi að ákvæðið nái fram að ganga.

Það væri fróðlegt að heyra hvernig hv. flutningsmanni sér fyrir sér að eftirfylgnin verði. Hvaða tæki eru til í stjórnkerfinu til að tryggja að markmiðið nái fram að ganga og það sitji sem næst jafnmargir karlar og konur í stjórnum fjármálafyrirtækja? Jafnframt hefði ég viljað heyra viðhorf 1. flutningsmanns til þess hvort hún og aðrir flutningsmenn frumvarpsins hefðu leitt hugann að því að þetta ákvæði næði ekki eingöngu yfir fjármálafyrirtæki heldur hefði það víðara gildissvið og við færum hér yfir fyrirtæki almennt. Þannig að ákvæðið væri sem sagt ekki bundið við fjármálafyrirtæki einvörðungu heldur almennt um fyrirtæki á markaði eða skráð fyrirtæki í fyrstu atrennu. Ég vildi gjarnan heyra viðhorf flutningsmanna, hvort þeir hafi leitt hugann að því.

Ég tel að markmiðið með þessu frumvarpi sé afar jákvætt og styð það heils hugar. En velti fyrir mér í því samhengi hvort tilefni sé til að ganga jafnvel enn lengra en hér er gert. Ég velti upp spurningunni um eftirfylgni og hvernig tryggja eigi að markmiðið náist, hvort hugsanlega þurfi að setja einhvers konar viðurlagaákvæði eða hvort eðlilegt sé að ákvæði sem þetta nái til breiðari hóps fyrirtækja en fjármálafyrirtækja. Þetta eru þær vangaveltur sem ég vil koma með inn í umræðuna og væri fróðlegt að heyra hvernig hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur sér það fyrir sér.