136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

111. mál
[18:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það frumvarp sem við ræðum nú, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, varpar upp nokkrum spurningum, t.d. hvort nýju bankarnir séu ekki örugglega ríkisfyrirtæki, hvort ríkið eigi þá ekki. Nú hefur enginn lagt fram hlutafé í þessa banka og þeir eru í rauninni eignalausir í augnablikinu, það vantar að setja inn í þá eigið fé. Ef þeir eru í eigu ríkisins ættu þeir að heita ohf., og ég hef grun um að þeir eigi að heita ohf. og vera opinber hlutafélög, og þá falla þeir nákvæmlega undir það ákvæði sem lagt til í þessu frumvarpi, að það eigi að kjósa jafnmarga borgara af hvoru kyni í stjórn. Þá er stjórn Kaupþings í rauninni brot á lögum vegna þess að þar eru eingöngu konur og í lögum um opinber hlutafélög stendur að það eigi að vera jafnt kynjahlutfall í stjórninni. Og einmitt talandi um eftirlitið sem nefnt var rétt áðan þá sýnir það sig að þó nokkuð mörg fyrirtæki sem eru alfarið í eigu opinberra aðila hafa ekki starfað eins og þau séu opinber hlutafélög, ohf. Ég nefni t.d. Þróunarfélagið á Keflavíkurflugvelli, sem er greinilega ohf., Keflavíkurflugvöll ohf. Þessi fyrirtæki öll ættu að hlíta reglum laga um opinber hlutafélög, t.d. að þar sé jafnt kynjahlutfall í stjórn, að halda eigi alla aðalfundi opinberlega, að þingmenn og kjörnir fulltrúar eigi rétt á að sækja þessa fundi o.s.frv. Fylgni við lögin virðist ekki nægilega góð, að menn fylgi lögunum ekki nægilega vel. Þetta sýnir sig best með skipun í stjórn Kaupþings þar sem eru eingöngu konur sem stendur sem brýtur þá þetta ákvæði laganna um opinber hlutafélög.

Svo kemur aftur það sjónarmið sem ég nefndi í sambandi við það, frú forseti, að hvers eiga þær konur að gjalda sem þurfa þá að víkja úr stjórninni, örugglega mjög hæfar, fyrir einhverja karlmenn sem væntanlega eru þá ekki eins hæfir vegna þess að annars hefðu þær ekki verið valdar? Þar kemur upp mjög ankannalegur vinkill á þessu talningakerfi sem sumir eru uppteknir af, að vera alltaf að telja fjölda manna eftir kyni í stjórnum og ráðum. Ef þetta frumvarp verður að lögum ættu þau eingöngu við um fjármálafyrirtæki sem ekki fóru á hausinn, Straum og MP-banka o.s.frv., og þau fyrirtæki eru náttúrlega með rekstur meira og minna í útlöndum, þannig að ég ætla að vona að þetta verði ekki til þess að þau taki pokann sinn og yfirgefi landið.

Það var líka rætt við lagasetninguna um opinber hlutafélög að þetta kynni að verða til þess að það myndaðist tvenns konar stjórn, sú opinbera sem hittist öðru hverju og drekkur kaffi og svo einhver minni stjórn sem tekur ákvarðanir.