136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

111. mál
[18:21]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu um það mál sem ég mælti fyrir áðan. Það er kannski fyrst til að taka að ég held að við hv. þm. Pétur H. Blöndal verðum seint sammála í jafnréttismálum. Þannig er það bara og þannig held ég að það verði. Að halda því fram að fjármálafyrirtæki flýi land vegna þess að þau þurfi að fylgja jafnréttislögum finnst mér nú frekar langsótt en látum það liggja á milli hluta. Ég held að við verðum að átta okkur á því að nýir tímar kalla á nýja hugsun og nýja nálgun. Karlakapítalisminn, eins og ég hef kallað það, varð gjaldþrota á Íslandi í byrjun október og ég held að það sé rækilega kominn tími til að við loftum út úr þeim karlakytrum sem hingað til hafa ráðið öllu í okkar samfélagi. Þá er ég ekki að tala um það, eins og mátti skilja á máli hv. þingmanns, að setja þar inn eingöngu konur. Þetta snýst um það að tryggja að ekki sé lýðræðishalli í landinu, að ekki sé lýðræðishalli í þeim stofnunum þar sem ráðum er ráðið í okkar samfélagi, þar með talið fjármálastofnunum en við vitum hversu gríðarlega mikil völd fylgja því að fara með stjórnun í fjármálafyrirtækjum. Þessi tillaga gengur eingöngu út á að tryggja að þetta jafnvægi sé í lagi.

Vegna þess sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði, og ég vil þakka honum fyrir ágæta ræðu, þá er þetta auðvitað löngu tímabær og brýn umræða. Tillagan sem hér er flutt tekur mið af jafnréttislögunum eins og þau eru í dag og voru samþykkt þegar þeim var breytt síðast. Auðvitað velti ég því fyrir mér þegar ég var að skoða þetta mál hvort það ætti að ganga lengra. Ég legg hins vegar ekki mat á það hér og nú en mér finnst sjálfsagt að það verði skoðað í þingnefndinni hvort ganga eigi lengra og jafnvel að láta þetta ná til annarra fyrirtækja. Það hefur verið mjög athyglisvert að skoða þetta mál, ef maður skoðar gögn og pælir í þeirri umræðu sem fór fram í Noregi á sínum tíma og víðar á Norðurlöndunum varðandi þetta, hún er mjög keimlík umræðunni sem hefur ávallt farið fram á Íslandi um þetta, mjög í anda þess sem hv. þm. Pétur Blöndal bar upp áðan. Hins vegar er sannleikurinn sá og niðurstaðan sú eins og t.d. í Noregi að þá hefur verið býsna mikil ánægja með þetta fyrirkomulag. Ég veit alla vega ekki um eitt einasta fyrirtæki sem hefur flúið land eða flutt starfsemi sína frá Noregi vegna þess að það hafi þurft að uppfylla þessi ákvæði. Ég er alveg tilbúin til að skoða að þetta verði útvíkkað og við látum þetta ganga yfir önnur fyrirtæki.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson spurði mig út í viðurlögin. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að mér er í fyrsta lagi frekar illa við að setja inn svona viðurlagaákvæði án þess að láta fyrst reyna almennilega á það sem stendur í frumvarpinu. Ef menn neyðast hins vegar til þess einhverra hluta vegna að fara þá leið að beita sektum eða eitthvað slíkt er sjálfsagt að skoða það. Ég held hins vegar, frú forseti, að mórallinn í samfélaginu, ég leyfi mér að orða það svo, sé þannig núna að menn hafi áttað sig á því að það er einfaldlega kominn tími til þess að við gætum að þessum hlutum og að hlutirnir séu í lagi hér. Mig langar að nefna eitt fyrirtæki sem er eingöngu rekið af konum, fjármálafyrirtæki sem heitir Auður Capital og ég hygg að sé eitt af þeim fyrirtækjum sem standi bara býsna vel í augnablikinu, en þær konur sem hafa rekið það fyrirtæki og borið uppi þá starfsemi hafa lýst því yfir í fjölmiðlum núna í kjölfar bankahrunsins og kreppunnar að yfirlýst stefna þeirra hafi einmitt verið varfærin fjárfestingarstefna og að ana ekki út í hluti án þess að hugsa þá til enda, svo því til haga haldið.

Ég vil að endingu þakka fyrir umræðuna og almennt jákvæð viðbrögð sem tillagan hefur fengið.