136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

111. mál
[18:32]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér varð hugsað til þess þar sem ég sat hér undir andsvari hv. þm. Péturs H. Blöndals að ég hygg að svipuð ræða efnislega séð hafi margoft verið haldin hér á hinu háa Alþingi. Ég hugsa að þegar samtök um kvennalista komu fram á sínum tíma og fluttu þingmál hér í salnum þá hafi þær margoft heyrt svipaðar ræður efnislega og hv. þm. Pétur H. Blöndal flutti áðan.

Hversu lengi höfum við verið að hjakka í sama farinu? Hversu lengi höfum við verið að því? Í áratugi. Og í áratugi höfum við þurft að hlusta á svipaðar ræður og hv. þm. Pétur H. Blöndal flutti áðan og ekkert gerist. Við stöndum enn þá í sömu sporum.

Og af hverju, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal, þetta misrétti? Við þurfum að komast að því af hverju þetta misrétti er til að geta leiðrétt það. Eru menn ekki búnir að reyna að komast að því í áratugi? Ég segi, það er komið nóg af því. Það þarf að grípa til róttækra aðgerða sem virka alveg eins og hefur verið gert í nágrannalöndum okkar þar sem hlutirnir eru til fyrirmyndar, t.d. í Noregi.

Varðandi bankaráðin og það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal um þau þá er það auðvitað þannig að jafnréttið virkar í báðar áttir. Það er enginn að tala um annað og það er bara útúrsnúningur að halda því fram að hér eigi að skipta út öllum körlum fyrir konur. Þetta snýst um að leiðrétta kynjamisréttið og þann lýðræðishalla sem er í þessum stofnunum eins og víða annars staðar í samfélaginu og út á það gengur þessi tillaga og það er engin ástæða til þess að vera að snúa út úr henni eins og hv. þingmaður gerði.