136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

111. mál
[18:43]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Þessi umræða virðist nú ætla að verða aðeins lengri en leit út fyrir í upphafi. Það er óhætt að segja að viðbrögð hv. þm. Péturs H. Blöndal hafi komið af stað býsna líflegum umræðum. Það er merkilegt að heyra þingmanninn segja að hann hafi miklar efasemdir um allar jafnréttisáætlanir og hann telji að allt of mikill jafnréttisiðnaður sé rekinn hér og sé í gangi.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Í hvaða stöðu heldur hann að við stæðum í dag ef enginn hefði haldið utan um þessi mál og engin væru jafnréttislögin, að þessi jafnréttismál hefðu bara komið af sjálfu sér? Auðvitað er það ekki þannig. Sjálf hef ég reynslu af því úr störfum mínum í borgarstjórn Reykjavíkur að þar sem markvissar jafnréttisáætlanir voru settar, t.d. um að jafna hlut kynjanna í yfirstjórn borgarinnar, þá virkaði það. Það hafði ekki virkað í 60 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins þar á undan.

Ég hef líka reynslu af því að setja tiltekna markmiðssetningu varðandi launamál til þess að lyfta sérstaklega lægstu launum kvennahópanna. Það virkaði. Ég er ekki viss um að það hefði virkað ef aðferð hv. þm. Péturs H. Blöndal hefði verið notuð.

Niðurstaða mín er því sú að það er ekki hægt að halda því fram að jafnrétti komi af sjálfu sér. Það er ekki hægt að halda því fram að maður eigi ekki að setja neinar reglur, neina umgjörð, að leyfa markaðnum bara að ráða, vegna þess að þá gerist ekki neitt. Það gerðist allt of lítið í jafnréttismálum á Íslandi allt of lengi.

Ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem voru samþykkt í tíð fráfarandi ríkisstjórnar undir forustu hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra þáverandi, Jóhönnu Sigurðardóttur, munu ganga lengra en fyrri lög. Þau veita m.a. Jafnréttisstofu heimild til að hafa eftirlit með því að lögunum sé framfylgt.

Og vegna þess að hv. þingmaður kallaði eftir því eða talaði um að lagasetningin hefði ekki dugað og þess vegna væri hún óþörf af því henni hefði aldrei verið fylgt eftir þá erum við í þessum nýju jafnréttislögum komin inn með heimild fyrir Jafnréttisstofu til þess að grípa inn í, alveg á sama hátt og Samkeppniseftirlitið hefur heimild til að grípa inn í ef því sýnist að eitthvað sé að fara úrskeiðis. Ég tel að sú heimild sé afar mikilvæg og þessi lög veiti okkur kærkomið tækifæri til þess að fylgja, núna jafnvel í fyrsta skiptið lögunum markvisst eftir en þá reynir að sjálfsögðu á Jafnréttisstofu, að hún beiti heimildum sínum og fylgist með að hlutirnir séu í lagi.