136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

111. mál
[18:52]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að benda hv. þm. Pétri Blöndal á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með fjármálaráðuneytið lengst af þann tíma sem hann hefur verið í ríkisstjórn og allt snýst þetta jú um peninga. Ég hef ekki orðið vör við það að fjármálaráðuneytið undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hafi lagt sérstaka áherslu á að leiðrétta t.d. laun lægst launuðu kvennastéttanna hér á landi.

Allt snýst þetta um peninga og að vísa því yfir á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki farið með félagsmálaráðuneytið — við vitum að þetta snýst um peninga og að fjármálaráðuneytið bakki upp það sem kemur úr fagráðuneytunum.

Það er líka svolítið merkilegt, frú forseti, í umræðum um jafnréttismál að þegar maður krefur Sjálfstæðisflokkinn um orð og efndir í þeim málaflokki og stefnu (PHB: Ég er ekki Sjálfstæðisflokkurinn.) kemur yfirleitt alltaf sama svarið og það er fæðingarorlof feðra. Það var vissulega skref í rétta átt enda held ég að allir séu sammála um það. Nú kallar hv. þingmaður fram í og segist ekki vera Sjálfstæðisflokkurinn. Það er ágætt að vita það en hann er hins vegar þingmaður Sjálfstæðisflokksins og hlýtur að tala fyrir stefnu hans í jafnréttismálum, a.m.k. einhverjum hluta þeirrar stefnu. Ég lýsi þá eftir klárri, skýrri stefnu þess flokks í jafnréttismálum. Ef sú stefna felst fyrst og fremst í því að tala um fæðingarorlof feðra er það býsna rýrt í roðinu. En kannski er það þá bara þannig.