136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til að þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir ummæli sín í viðtali í sjónvarpinu í gær þar sem hún tók fyrir sitt leyti ábyrgð á hruni efnahagslífsins í haust og aðdraganda þess sem þingmaður í tvö kjörtímabil. Hún bað kjósendur sína og allan almenning afsökunar á þætti sínum í því máli, hún hefði ekki fylgst nógu vel með og ekki verið nægilega á verði.

Ég þakka henni í alvöru og í einlægni fyrir þau orð þar sem mér finnst hún ganga framar og mæla djarflegar en margir þingmenn og ráðherrar hafa þorað að gera. Ég hvet í þessu framhaldi til umræðu um þetta mál og ábyrgð kjörinna fulltrúa á ástandinu, bæði þingmanna og ráðherra.

Ég sjálfur, aumingi minn, hef hugað að þessu í eigin ranni. Ég hef verið varaþingmaður þetta kjörtímabil og ekki tekið þátt í helstu ákvörðunum sem hér hafa verið teknar. Samfylkingin hefur stjórnað í 18 mánuði og Sjálfstæðisflokkurinn í 18 ár, eins og menn hafa sagt, en undan ábyrgð verður ekki vikist. Ég finn hjá sjálfum mér þá ábyrgð að ég var ekki nógu gagnrýninn í mínum flokki, ég átti að afla mér betri yfirsýnar, ég átti að fylgjast betur með hæstv. utanríkisráðherra og félögum hans og ég átti að fylgja betur eftir þeim spurningum sem vöknuðu við forustumenn í flokki mínum.

Um leið og ég votta hv. þm. Ástu Möller virðingu mína vil ég spyrja hana hvort flokkur hennar hafi í heild tekið sömu afstöðu og hver viðbrögð forustumanna hennar, hv. þm. Geirs Haardes, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, Björns Bjarnasonar eða keppenda um formennsku og önnur völd í Sjálfstæðisflokknum, hv. þm. Illuga Gunnarssonar, Bjarna Benediktssonar, (Forseti hringir.) Guðlaugs Þórs Þórðarsonar (Forseti hringir.) eru við víðtækri yfirlýsingu hennar og efnislegu innihaldi hennar.