136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Marðar Árnason vil ég taka fram að margoft hefur komið fram í ræðum og ritum okkar sjálfstæðismanna að Sjálfstæðisflokkurinn axlar ábyrgð sína og gengst fúslega við henni. Það hefur margoft komið fram í ræðum okkar sjálfstæðismanna. Hins vegar virðist það vera að ýmsir stjórnmálamenn og þeir sem fjalla um ábyrgð kjörinna fulltrúa líti þannig á að Sjálfstæðisflokkurinn einn hafi verið við stjórn landsins í aðdraganda bankahrunsins. Það var auðvitað ekki svoleiðis. Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn hafa verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og nú er Samfylkingin í ríkisstjórn með Vinstri grænum. Við horfum upp á það að miklar breytingar eru yfirvofandi í forustuliði Sjálfstæðisflokksins og stór hluti forustumanna hans mun víkja af vettvangi eftir næstu kosningar, af ýmsum ástæðum, og það segir kannski sitt.

Það sama er hins vegar ekki hægt að segja um Samfylkinguna. Þar sitja sömu kapparnir í ráðherrastólunum og á meðan bankahrunið átti sér stað, eins og hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson. Forusta Samfylkingarinnar ætlar að sitja, sömu ráðherrarnir og voru í síðustu ríkisstjórn. Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir ætlar ekki að axla neina ábyrgð og ekki verður séð að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ætli að gera það. Það sem merkilegast er, og hefur komið fram í fjölmiðlum á síðustu dögum, er að forustumenn Samfylkingarinnar, sem bera ábyrgð ásamt okkur öllum hinum, hafa raðað sér niður í forustusæti í komandi prófkjöri Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhanna Sigurðardóttir (Forseti hringir.) og Össur Skarphéðinsson. (Gripið fram í.) Menn verða að líta (Forseti hringir.) í eigin barm áður en þeir beina spjótum sínum einungis að (Forseti hringir.) sjálfstæðismönnum.