136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum sjálfstæðismanna í þessari umræðu. Hér kemur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og svarar spurningum um ábyrgð Sjálfstæðisflokksins með því að reyna að koma ábyrgðinni yfir á hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Ég tel mér skylt að koma henni til varnar í þessari umræðu þar sem hún hefur ekki tök á að svara fyrir sig. Skýrt hefur komið fram af hálfu formanns Samfylkingarinnar að hún tekur ábyrgð á gerðum Samfylkingarinnar en hún tekur ekki ábyrgð á efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins síðustu 17 árin. Það er ekki Samfylkingarinnar að taka ábyrgð á efnahagslegri óreiðu, efnahagsstefnu sem byggðist á innantómri bólu, skattalækkunum sem ekki voru efni til að veita og algjörri blindni á þær hættur sem steðjuðu að íslenskum efnahag vegna einangrunarhyggju Sjálfstæðisflokksins.

Við vöruðum við því í aðdraganda kosninga 2007 að íslenskt fjármálakerfi væri berskjaldað fyrir skyndilegum veðrabrigðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Við bentum á að eina raunhæfa úrlausnin í því efni væri aðild að Evrópusambandinu.

Sjálfstæðisflokkurinn féllst á það við ríkisstjórnarmyndun 2007 að horft yrði á aðildarumsóknina að Evrópusambandinu í ljósi hagsmunamats. En svo flögraði flokkurinn burt undir forustu manna eins og hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og fleiri, sífellt í hugmyndafræðilegri andstöðu við Evrópusambandið og neitaði að horfast í augu við þá hagsmuni þjóðarinnar sem voru af því að binda enda á þennan óstöðugleika og koma traustari stoðum undir íslenskt efnahagslíf til lengri tíma.

Þar liggur ábyrgð Sjálfstæðisflokksins hrein og skýr og verður ekki af honum tekin og henni verður ekki hnoðað á aðra. Hún er Sjálfstæðisflokksins, einangrunarhyggja Sjálfstæðisflokksins og skilningsleysi hans á mikilvægi traustra og öruggra samskipta við önnur ríki eru grundvallarástæða hrunsins.