136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

efnahagshrunið og pólitísk ábyrgð.

[13:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Um margt er hún athyglisverð sú umræða sem hér fer fram um sekt og sakleysi á efnahagskreppunni sem dunið hefur yfir þjóðina. Því hefur verið haldið fram af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að Samfylkingin hafi enga ábyrgð axlað og viljað varpa öllu yfir á Sjálfstæðisflokkinn. Samfylkingin hefur þrátt fyrir allt axlað tiltekna ábyrgð með því að slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn sem hér var við völd í 18 ár samfleytt. Stór hluti af forustu Sjálfstæðisflokksins gefur sannarlega ekki kost á sér í næstu kosningum. Það má kannski segja sem svo að þannig sé hann að axla ábyrgð. En hvað með alla hina? Hvað með t.d. hv. þm. Pétur Blöndal, sem hér kom og hefur átt sæti í efnahags- og viðskiptanefnd og efnahags- og skattanefnd í 12 ár? Ber hann enga ábyrgð á efnahagshruninu og gefur svo kost á sér áfram?

Sjálfstæðisflokkurinn segir að stefnan hafi ekki brugðist heldur fólk. En víst brást stefnan, það er frjálshyggjan, það er afskiptaleysisstefnan, það er græðgin og drambið, hömlulaus trú á markaðinn, takmarkalausan vöxt í algerri blindni. Það er stefnan sem brást. Henni var vissulega framfylgt af fólki en það er hún sem brást. Á sama tíma kemur formaður Sjálfstæðisflokksins skipti eftir skipti í fjölmiðla innan lands og utan og axlar enga ábyrgð, neitar að taka ábyrgð á efnahagshruninu eða biðja þjóðina afsökunar. Það er að sjálfsögðu ámælisvert. Við bíðum eftir því að fá slíka afsökunarbeiðni frá formanni Sjálfstæðisflokksins.