136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

efnahagshrunið og pólitísk ábyrgð.

[13:51]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki óvænt að umræður hefjist í þingsal um ábyrgð þingmanna á því sem gerst hefur þegar nær dregur þeirri stund að þingmenn þurfa að mæta kjósendum sínum, annaðhvort í prófkjörum eða í kosningum. Ég held að við eigum að treysta þeim til að gera það uppgjör með heiðarlegum hætti og ég er ekki viss um að alþingismenn bæti miklu við í þingsal með því að leitast við að færa ábyrgð af sér yfir á einhvern annan. Ég er ekki viss um að við séum þess umkomnir að setja okkur í það sæti að geta lagt dóm á það.

Við getum hins vegar gefið þeim sem koma í þingsal að loknum næstu kosningum það ráð að muna betur eftir því til hvers þingmenn eru kosnir á þing og til hvers kjósendur ætlast af þeim. Kveðið er á um það í stjórnarskrá lýðveldisins að þingmenn eigi að fara að sannfæringu sinni og hafa hana í huga við störf á þingi. Ég held að margt hefði farið betur á undanförnum árum ef þingmenn hefðu munað það og gert það sem þeir vissu að var sannast og réttast en gert minna af því að fylgja í blindni foringjum og leiðtogum sem eru misvitrir eins og allir aðrir.

Mér finnst það hins vegar áhyggjuefni, og vil koma því hér á framfæri, að það eru ekki bara stjórnmálamenn sem bera ábyrgð. Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð á því sem gerðist og þeirri þróun sem varð. Þeir mæta ekki kjósendum sínum. Hvernig ætla menn að fá fjölmiðlana til að endurskoða störf sín í fortíðinni?