136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

efnahagshrunið og pólitísk ábyrgð.

[13:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að ræða allt annað. Þegar menn lenda í vandræðum, kreppu og þvílíku, er það oft þannig að mannréttindi eiga undir högg að sækja, menn horfa kannski minna á þau. Það er verið að gera kröfur um að frysta eignir o.s.frv. og það er sem sagt oft þannig að mannréttindi eiga undir högg að sækja.

Hv. þm. Atli Gíslason hefur verið mikill baráttumaður fyrir mannréttindum og stjórnarskránni o.s.frv. Mig langar að spyrja hann: Þann 24. mars, eftir þrjár vikur, mun Mannréttindadómstóll Evrópu fjalla um iðnaðarmálagjaldið og töku þess gegnum íslenska ríkið. Þetta tengist mjög mörgum öðrum málum, t.d. búnaðargjaldinu, fiskræktargjaldi, STEF-gjöldum, skyldugreiðslu opinberra starfsmanna til stéttarfélaga, hvort sem þeir vilja vera í þeim eða ekki, og tengist því að fólk er í rauninni með ríkisvaldi skyldugt til að borga í ákveðin félög sem það vill kannski ekki endilega vera í. Opinberir starfsmenn geta ekki stofnað stéttarfélög af því að þeir eru skyldaðir til að borga inn í þessi löggiltu stéttarfélög. Ég vil spyrja hv. þm. Atla Gíslason, sem er áhugamaður um mannréttindi, hvort hann hafi rætt þetta í þingflokki sínum og hvort hann hafi beint þessu máli til ríkisstjórnarinnar, sem hann styður, að hún taki á þessu máli áður en dómstóllinn fellir úrskurð þannig að við lendum ekki í þeirri niðurlægingu að Íslendingar verði, með dómsúrskurði frá Mannréttindadómstóli Evrópu, hugsanlega dæmdir fyrir mannréttindabrot.