136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

efnahagshrunið og pólitísk ábyrgð.

[14:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Þetta er alveg lögmætt sjónarmið sem hv. þm. Pétur Blöndal færir hér inn. Það er alveg hárrétt hjá honum að Mannréttindadómstóllinn mun taka þetta mál fyrir og hyggst gera það munnlega síðar í þessum mánuði sem bendir til þess að honum þyki málið hugsanlega fordæmisgefandi og jafnvel veigamikið.

Það verður hins vegar að hafa það hugfast í þessu máli að það hefur tveimur sinnum farið fyrir Hæstarétt og í bæði skiptin hefur Hæstiréttur komist að sömu niðurstöðu, að taka þessa gjalds sé lögmæt. Það verður því að liggja alveg skýrt fyrir að þetta er það sem íslensk stjórnvöld búa við, þetta er bakgrunnur málsins. Hæstiréttur Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu, ekki einu sinni heldur tveimur sinnum, að þetta gjald sé lögmætt. Ef Mannréttindadómstóllinn kemst að annarri niðurstöðu tökum við að sjálfsögðu mið af því en þetta er það sem íslenska dómskerfið hefur í reynd kveðið upp sem sinn úrskurð í málinu.