136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[14:21]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem slíkt kemur ekki í veg fyrir krosseignarhald. Ég verð hins vegar að taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal um að það væri mjög æskilegt að girða sem mest fyrir það. Enda var það ein af meinsemdunum í hagkerfinu sem við horfum nú upp á hrunið, að stóru leyti.

Í ráðuneytinu var skoðað hvort hægt væri að ganga enn lengra en gert er í frumvarpinu en að svo stöddu var ekki talið ráðlegt að reyna að ráðast í það, m.a. vegna sjónarmiða um stjórnarskrárverndaðan eignarrétt sem gæti flækt málið talsvert. Ég er hins vegar hjartanlega sammála þingmanninum eins og ég sagði áðan um nauðsyn þess að taka á þessu máli þó að ég hafi því miður ekki séð að fært væri að koma því inn í þetta tiltekna frumvarp.

Hvað varðar lögin um opinber hlutafélög og bankana þá teljast bankarnir, að því er mér skilst, ekki opinber hlutafélög heldur eru þeir venjuleg hlutafélög en verða væntanlega að minnsta kosti fyrst um sinn í eigu hins opinbera en falla þó ekki undir sérstök lög um opinber hlutafélög.

Að öðru leyti treysti ég mér ekki til að skera úr um hvort framkvæmd laga um opinber hlutafélög sé almennt í lagi eða hvort þar þurfi að bæta úr.