136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[14:25]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal ábendinguna um opinberu hlutafélögin og hvort bankar sem verða fyrirsjáanlega, að minnsta kosti fyrst um sinn, í eigu hins opinbera falla undir þau mun verða kannað í ráðuneytinu.

En að öðru leyti vil ég jafnframt taka undir hvað varðar þau almennu sjónarmið um gagnsæi og kynjahlutföll og annað sem tilgreint er sérstaklega í lögum um opinber hlutafélög. Það hlýtur að þurfa sterk rök til þess að víkja frá þeim varðandi þessi hlutafélög, hvort sem þau falla beint undir lögin eða ekki.