136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[14:46]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minni á að við erum að ræða um frumvörp sem koma frá hæstv. viðskiptaráðherra, og þá bankamálaráðherra. Hv. þingmaður nefndi nokkur frumvörp sem eru í meðförum annarra nefnda, allsherjarnefndar, efnahags- og skattanefndar svo eitthvað sé nefnt, og vissulega styð ég það að við lítum á þau málefni sem eiga að leysa vanda heimilanna og fjármálafyrirtækjanna og styrkja fjármálakerfið okkar, málefni sem eiga að efla fyrirtækin okkar og gera þeim kleift að starfa. Ég get fullyrt að stór hluti íslenskra fyrirtækja getur ekki starfað í dag. (Gripið fram í.) (ÁI: Er það eftir 18 ár?) Þau geta ekki starfað í dag vegna þess að (Gripið fram í.) umhverfið er óviðunandi vegna vaxtastigs og vegna þess að það eru óstarfhæfir bankar í landinu eins og er. Til að koma bönkunum í starfhæft ástand þannig að þeir þjóni fyrirtækjunum þarf hæstv. bankamálaráðherra að skoða þau málefni sem mega verða til þess að bankarnir okkar verði starfhæfir og geti gert það sem bankakerfið þarf að gera, hlúa að fyrirtækjunum og þar með öllum landsmönnum.