136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[15:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég fagna því frumvarpi sem við ræðum hér, um breytingu á lögum um hlutafélög, og tel að það sé mikilvægt skref í átt til þess sem þarf að gera. Ég tel reyndar að það sé engan veginn fullnægjandi og mun fara í gegnum það á eftir.

Fyrst vil ég fara yfir það sem hv. þm. Guðfinna S. Bjarnadóttir ræddi áðan, um áherslur ríkisstjórnarinnar. Komið hefur fram að eitt frumvarp hefur orðið að lögum, um Seðlabanka Íslands, og í rauninni hefur lítið breyst þar innan húss við það. Ekki er búið að skipa þá tvo menn sem eiga að koma utan frá — ég fór inn á netið og leitaði mér upplýsinga um Seðlabankann. Búið er að skipa seðlabankastjóra, norskan mann, og spurning er hvort það brýtur í bága við stjórnarskrána. Ég ætla ekki að fara inn á það atriði en sumir tala mikið um stjórnarskrána á þessum bæ og er það eðlilegt, við höfum svarið eið að henni. Síðan hefur undirmaður hans verið gerður að aðstoðarseðlabankastjóra og það er í samræmi við lögin. Þá hefur einn starfsmaður verið gerður að fulltrúa í nefnd en það vantar enn að forsætisráðherra tilnefni tvo í viðbót. Allt eru þetta aðilar sem forsætisráðherra einn tilnefnir — talandi um lýðræði, ráðherraræði og allt það — ég vildi bara koma því að. Þetta er í rauninni Jóhönnu-Sigurðardóttur-hæstv.-forsætisráðherra-seðlabanki í einu orði.

Svo hafa komið fram nokkur mál eins og það sem við ræðum hér, afskaplega mikilvæg mál, en þau eru meira hugsuð til framtíðar. Þetta frumvarp sem við ræðum nú mun ekki breyta í einni svipan stöðu fjölskyldna á Íslandi, það er alveg af og frá, og seðlabankafrumvarpið ekki heldur. Það kom einum manni frá sem var meiningin að gera og fóru reyndar tveir ágætismenn með honum en það var óvart. En að öðru leyti eru þau mál sem komið hafa frá ríkisstjórninni ekki til þess að breyta bráðri stöðu atvinnulífsins og þar með fjölskyldnanna.

Það sem þarf að gera núna er að koma bönkunum í gang. Af hverju þarf að koma bönkunum í gang? Eru örlög bankanna mér eitthvað sérstaklega hugleikin? Ó nei, en þeir eru mikilvægir fyrir fyrirtækin. Af hverju ber ég hag fyrirtækjanna fyrir brjósti? Vegna þess að þau eru mikilvæg fyrir atvinnuna. Og af hverju ber ég atvinnuna fyrir brjósti? Vegna þess að hún er það sem fjölskyldurnar lifa á. (Gripið fram í.) Þetta þarf að gera, að koma bönkunum í gang þannig að fyrirtækin fari í gang þannig að atvinnan haldist og ekki verði fleiri atvinnulausir.

Það gerist ekkert í þessu, bara ekki neitt. Það getur vel verið að eitthvað mikið sé að gerast á bak við tjöldin sem ég veit ekki um og ég vona það eindregið.

Það frumvarp sem við ræðum hér reynir að taka á þessu. Upplýsa í hlutaskránni að það geymi réttar upplýsingar. Nema hvað? Það stendur þarna að stjórnin eigi að sjá til þess að réttar upplýsingar séu þar, annað væri nú furðulegt. Það er árétting á því að menn fari að lögum. Síðan skal getið um öll samstæðutengsl. Ég reyndi að fletta upp hvað samstæðutengsl eru, það eru tengsl á milli hlutafélags og dótturfélags og ekki er sagt hvers eðlis það er, hvort það megi eiga meira en 50% í dótturfélaginu. En það eru örugglega ekki tengsl sem byggja á 5% eða 7% eignarhaldi í einhverju hlutafélagi. Það er einmitt þar sem veikleikinn liggur. Þess vegna kemur þetta ekki í veg fyrir krosseignarhald sem ég tel reyndar að sé eitt mesta meinið og hefur spólað upp bæði áhættugleði og lántökumöguleika fyrirtækja langt umfram það sem vera skyldi.

Svo er rætt hér um kynjahlutfall. Við ræddum það dálítið mikið í gær þannig að ég ætla ekki að endurtaka þá umræðu alla. Ég lýsti því yfir að kynjamisréttið hefði lítið lagast þrátt fyrir alla tilburði manna til þess í gegnum tíðina. Ég bað þá sem trúa á hausatalningar og jafnréttisáætlanir og annað slíkt að hugleiða hvort það gæti verið að eitthvað væri að aðferðafræðinni, hvort menn væru ekki í rauninni að breyta hitamælinum í staðinn fyrir að lækna sjúkdóminn. Ég hef nefnilega grun um það.

Ég stakk upp á því í umræðu fyrir jólin fyrir rúmu ári síðan að tekin yrði upp jafnréttisvottun í fyrirtækjum þar sem fyrirtækin mundu sjálf koma upp kerfi til að koma á jafnrétti innan húss. Ég bind miklu meiri vonir við það kerfi en að það sé gert með þvingunum ofan frá í fyrirtækinu. Það er alltaf betra þegar fyrirtækin vilja eitthvað sjálf og geta þá sagt að þau séu með jafnréttisvottun jafnt sem gæðavottun eða umhverfisvottun o.s.frv. Ég ætla ekki að ræða meira um kynjahlutföllin.

Varðandi starfandi stjórnarformann hef ég bent á, bæði á Alþingi og annars staðar, að það brjóti að sjálfsögðu skipuritið, maðurinn er bæði yfir sér og undir. Sem starfandi stjórnarformaður er hann einhvers konar forstjóri og stjórnin er yfir forstjóranum. Stjórnarformaðurinn er yfir stjórninni. Hann stýrir stjórninni, fundum og ákveður hvenær halda skuli fundi o.s.frv. og svo er hann jafnframt yfir framkvæmdastjóranum sem er hann sjálfur. Það brýtur því alveg skipurit fyrirtækisins og ætti ekki að vera þar. Hér er það tekið í burtu og það er ágætt. Að öðru leyti er ekki rætt meira um þetta.

Ég gat um það í andsvari áðan að ég legg fram tillögu til þingsályktunar um nýja tegund hlutafélaga sem eru með gagnsætt eignarhald og bann við lánveitingum og krosseignarhaldi slíkra hlutafélaga. Meiningin hjá mér er sem sagt að búa til nýtt fyrirbæri, svona hvítfélög sem þurfa að fullnægja ákveðnum skilyrðum, t.d. því að upplýsa á netinu hvaða félögum þau eiga í og hvaða félög eigi í þeim. Auk þess eiga þau að hafa það skilyrði að fyrirtæki sem á í þeim og ekki er hvítt fær hvorki arð né atkvæðisrétt. Þar með er nánast útilokað að einhverjir vilji fjárfesta í þeim nema þau séu hvít félög. Þar með er búið að fá eignarhaldið bæði upp úr og niður úr. Það er alveg á tæru og á að birtast á netinu. Ég held að með því að skilgreina nýtt hugtak sem er að því leyti aðlaðandi fyrir hlutafélög, að lánveitendur og fjárfestar muni treysta þeim miklu betur, það muni verða til þess að smátt og smátt, og sennilega mjög hratt, mundu öll fyrirtæki í landinu verða gagnsæ hlutafélög.

Hins vegar er vandamál með útlönd í því sambandi og ég geri ráð fyrir því að umheimurinn þurfi líka að taka upp svipað kerfi vegna þess að vandamálið með gagnkvæmt eignarhald er alls ekki bundið við Ísland. Það er mikið vandamál í Þýskalandi og í Japan, óskaplega mikið vandamál. Það er svo mikil flétta á milli hlutafélaga að það er með ólíkindum. Gagnkvæmt hlutafélag, þ.e. krosseignarhald veldur því að stjórnir fyrirtækjanna fá völdin en upphaflegir hluthafar hverfa. Þetta ræddi ég á fundi í efnhags- og skattanefnd fyrir þrem eða fjórum árum og mætti ekki miklum skilningi. Ég tel að þetta sé eitt af því sem við þurfum að leysa og það frumvarp sem við ræðum er ákveðið skref í þá átt.

Ef frumvarpið verður að lögum yrði væntanlega að breyta stjórnum margra fyrirtækja, fullt af fólki yrði að fara, bæði karlmenn og konur, og víkja fyrir öðrum sem ekki var valið á sínum tíma. Sennilega var það ekki valið vegna þess að það var ekki hæft, vonandi, þó að óskaplega miklir fordómar séu örugglega í gangi, sérstaklega í þeim stjórnum sem eingöngu eru skipaðar karlmönnum. En nokkrar stjórnir eru þó skipaðar konum eingöngu. Ég hugsa að það séu góðar stjórnir, eins og t.d. stjórn Kaupþings og Auðar Captials. Ég hef kíkt það, þar eru fjórar konur á móti einum karli. Ein konan verður þá að víkja, verði þetta frumvarp að lögum, og tvær í stjórn Kaupþings. En þetta endurspeglar þá trú að hægt sé að keyra jafnréttið ofan í kokið á atvinnulífinu með valdboði. Ég held að það sé ekki rétta aðferðin, það skekkir bara hitamælinn, misréttið verður eftir sem áður. Ég sé ekki að menn reyni neitt að laga það.

Þó að þeir geti talið jafnmarga hausa í atvinnulífinu hugsa ég að fyrir konuna sem er að vinna niðri á gólfi með góða menntun og mikla reynslu, er afskaplega hæf en kemst ekki áfram af því að hún rekst á eitthvert glerþak, breyti það ósköp litlu þó að hægt sé að telja jafnmargar konur og karla í stjórnum og ráðum fyrirtækja.