136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[15:13]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna hverju tækifæri sem gefst til þess að fara yfir þau mörgu góðu mál sem hæstv. ríkisstjórn hefur nú þegar lagt fyrir þingið. Vegna orða þingmannsins ætla ég enn að fara yfir þau og nokkuð nánar.

Ég vil vekja athygli á því að hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um greiðsluaðlögun bæði á almennum skuldum og fasteignaveðlánum, frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti þar sem tekið er á réttarstöðu skuldara og breytingu á lögum um lengingu aðfarartíma úr 15 dögum í 45, og breytingu á lögum um nauðungarsölu sem er um frestun í sex mánuði. Þessi mál eru öll í hv. allsherjarnefnd og þess mun ekki langt að bíða að þau komi þaðan til afgreiðslu á þinginu.

Þá vil ég aftur minna á að í morgun var afgreitt mál í hv. efnahags- og skattanefnd sem varðar endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts á viðhaldsverkum og er til mikilla bóta og nýmæli. Ég vil aftur minna á að eftirlaunamálið hefur verið afgreitt í nefnd og er hér á dagskrá síðar í dag. Jafnframt hefur verið lagt fram frumvarp vegna séreignarsparnaðar sem mun auka svigrúm manna til þess að nýta hann í erfiðu árferði.

Ég fletti hér blaði sem var lagt fram við stjórnarskiptin, þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, og það skal viðurkennt að ekki eru öll málin komin fram. En ég vek athygli á því að þessi ríkisstjórn hefur aðeins starfað í einn mánuð og það verður að segjast eins og er (Forseti hringir.) að það er ekki upp á ríkisstjórnina að klaga. (Forseti hringir.) Það er þá frekar að þingið hafi ekki verið nógu snöggt að afgreiða hlutina og taka þá á dagskrá.