136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og verðbréfaviðskipti.

358. mál
[15:26]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, og lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007 á þingskjali 608, mál nr. 358.

Frumvarpið miðar að því að auka gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins en í því er gerð tillaga um að stofnuninni verði veitt heimild til að greina frá niðurstöðum mála og athugana sem byggjast á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998. Sambærilegt ákvæði er þegar að finna í gildandi lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 107/2008, samanber 139. gr. laganna, en ákvæðið kom nýtt inn í eldri lög um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, á árinu 2005. Rétt þykir að heimildin samkvæmt 139. gr. laga nr. 108/2007 falli brott og að einungis verði kveðið á um hana í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, enda starfar Fjármálaeftirlitið samkvæmt síðarnefndu lögunum.

Í almennum athugasemdum við ákvæði það sem varð síðar að 139. gr. laga um verðbréfaviðskipti segir meðal annars að Fjármálaeftirlitið birti margvíslegar upplýsingar og sinni kynningum og fræðslu en hafi áður ekki fjallað opinberlega um einstök mál eða málefni einstakra eftirlitsskyldra aðila nema mælt sé fyrir um veitingu upplýsinga í lögum. Því hafi eftirlitsskyldir aðilar eða almenningur ekki átt aðgang að niðurstöðum í einstökum málum nema þær hafi verið birtar af öðrum aðilum en Fjármálaeftirlitinu. Oft hafi Fjármálaeftirlitið sætt gagnrýni vegna þess síðastnefnda. Nefnt hafi verið að varnaðaráhrif af aðgerðum Fjármálaeftirlitsins og niðurstöðum séu lítil og aðgerðir þess í einstökum málum stuðli ekki nægilega að bættri framkvæmd á fjármálamarkaði í heild. Í athugasemdunum kemur jafnframt fram að þeir sem standi utan fjármálamarkaðar virðist oft draga þá ályktun að með þögn eftirlitsins um einstök verkefni sín felist að Fjármálaeftirlitið sé veik stofnun og að þar sé lítið aðhafst. Þá hafi fjölmiðlar sýnt málinu áhuga en auk þess hafi aðilar á markaði, í aðdraganda frumvarpsins, talað fyrir auknum heimildum til handa Fjármálaeftirlitinu að því er þessi atriði varðar. Í athugasemdum við áðurnefnt frumvarp kemur enn fremur fram að telja megi nauðsynlegt að Fjármálaeftirlitinu verði heimilað að greina frá niðurstöðum athugana þó að þær leiði ekki til sérstakra aðgerða. Þannig geti það haft augljósa þýðingu að upplýst sé að Fjármálaeftirlitið hafi ekki talið ástæðu til aðgerða í tilteknu máli.

Rökin fyrir því að unnt sé að greina frá niðurstöðum athugana Fjármálaeftirlitsins eru augljós þegar horft er til trúverðugleika um starfsemi fjármálafyrirtækja auk þess sem gera má ráð fyrir því að aukin upplýsingagjöf um starfshætti fjármálafyrirtækja muni styrkja aðhald með þeim. Þess ber að geta að tillagan um heimild til birtingar upplýsinga er ekki án undantekninga þar sem ekki er gert ráð fyrir birtingu tiltekinna upplýsinga ef sýnt er fram á að slík birting geti stefnt hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu eða geti valdið hlutaðeigandi aðilum tjóni sem telst ekki í eðlilegu samræmi við brot það sem um ræðir. Þá er í frumvarpinu lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði gert að birta opinberlega þá stefnu sem eftirlitið fylgir við framkvæmd birtingar á upplýsingum, í því skyni að tryggja að öll eðlislík mál séu meðhöndluð með sambærilegum hætti og að starfsemi Fjármálaeftirlitsins sé samræmd og styðji við eftirlitsverkefni.

Hæstv. forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.