136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og verðbréfaviðskipti.

358. mál
[15:32]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Péturs Blöndals um að hér er á ferð þarft frumvarp. Það er líka afskaplega einfalt, það er ein grein nánast sem ætti ekki að vefjast fyrir mönnum að koma frá sér frá hv. viðskiptanefnd.

Það er aðeins eitt sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra varðandi þetta mál. Hér er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið fái heimild til að birta niðurstöður á opinberum vettvangi, niðurstöður í málum og athugunum og jafnframt að Fjármálaeftirlitið skuli marka sér stefnu um slíka birtingu og birta hana opinberlega.

Ég tek undir það sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan að það hefur hvílt óþörf dulúð yfir störfum Fjármálaeftirlitsins síðustu mánuði. Það var dapurlegt að fylgjast með því hvernig forsvarsmenn Fjármálaeftirlitsins voru á stöðugum flótta undan fjölmiðlum mánuðum saman og nú má stofnunin sæta því að menn segja og fullyrða að til hennar hafi verið vísað málum til rannsóknar sem ekkert hafi verið unnið í. Þetta er auðvitað óásættanleg staða fyrir Fjármálaeftirlitið og það hlýtur að verða að tryggja heimildir til þess að birta niðurstöður opinberlega, ég tek undir það. En ég spyr hæstv. ráðherra, af því að í lok 1. gr. segir: „Fjármálaeftirlitið skal birta opinberlega þá stefnu sem eftirlitið fylgir við framkvæmd slíkrar birtingar.“ Kemur ekki til greina að þarna verði sett inn reglugerðarheimild til handa ráðherra til þess að móta slíkar reglur sem þarf þá skilyrðislaust að fara eftir?