136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[15:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Sem fyrr fagna ég því frumvarpi sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur mælt fyrir og er til þess ætlað að hvetja fyrirtæki og einstaklinga til að gefa sig fram við Fjármálaeftirlitið og upplýsa um brot sem þeir kunna að hafa vitneskju um. Ég tel mjög eðlilegt að Fjármálaeftirlitið fái heimildir til þess að falla frá sektarákvörðun eða lækka sektir en ég hlýt að staldra aðeins við 3. lið, er meginatriði athugasemda minna, sem er að kæra ekki brot til lögreglu.

Við höfum nýlega leitt í lög um sérstakan saksóknara það nýmæli í réttarfarslöggjöf hér á landi að þeir sem segja til brots sem þeir kunna að vita um sæti ekki ákæru. Þetta eru nokkuð strangari reglur sem settar voru í lögin um sérstakan saksóknara í 5. gr. en þær sem hér er um að ræða og skilyrði niðurfellingar nokkuð stíf, m.a. að upplýsingarnar eða gögnin tengist alvarlegu broti, fyrirséð sé að sök þess sem lætur slíkt í té sé mun minni en sök þess eða þeirra sem gögnin eða upplýsingarnar beinast gegn og ástæða sé til að ætla að án þeirra muni reynast torvelt að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir broti.

Ég teldi að óathuguðu máli að eðlilegt væri að gera nokkuð svipaðar kröfur til þess ef aðilar fá heimild til að kæra ekki brot til lögreglu. Ég efast satt best að segja um að nauðsynlegt sé eins og hér er gert ráð fyrir að hafa þær heimildir víðtækari en til að mynda sérstakur saksóknari hefur. En ég efast ekki um að hv. viðskiptanefnd mun skoða þessi mál vandlega. Þetta er tiltölulega, eins og önnur þau mál sem hæstv. ráðherra hefur fært fram í dag, nokkuð einfalt og skýrt mál sem ætti ekki að vera vandi að skoða hratt og örugglega í nefndinni.