136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

ársreikningar, endurskoðendur og skoðunarmenn.

245. mál
[15:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, með síðari breytingum, og fleiri lögum varðandi endurskoðendur og skoðunarmenn.

Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til breytinga á lögum um bókhald.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem leiða af lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, sem samþykkt voru á síðasta vorþingi. Töluverðar breytingar voru þá gerðar á áður gildandi lögum og reglum um endurskoðendur. Samkvæmt þeim lögum geta ekki aðrir en þeir sem fá löggildingu ráðherra endurskoðað reikningsskil og áritað þau í samræmi við endurskoðunina. Meginbreytingar þær sem lagðar eru til leiða af því að breyta núverandi lögum sem leggja störf endurskoðenda og skoðunarmanna að jöfnu. Þá verður í framhaldi af því að fylgja þeirri breytingu eftir með breytingum á löggjöf í félagarétti, svo sem lögum um hlutafélög, einkahlutafélög og fleiri lögum, sem gera kröfu um kosningu endurskoðenda og/eða skoðunarmanna í samþykktum sínum og framlagningu endurskoðaðra ársreikninga.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að falla frá endurskoðunarskyldu minni félaga eins og þau eru skilgreind í 98. gr. laga um ársreikninga. Er það í samræmi við heimild í 2. mgr. 51. gr. í fjórðu tilskipun Evrópusambandsins, um ársreikninga félaga með takmarkaðri ábyrgð, að falla frá endurskoðunarkröfu minni félaga.

Einnig eru lagðar til breytingar á 8. gr. laganna sem fjallar um þau skilyrði sem félög verða að uppfylla til að fá heimild ársreikningaskrár til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Ekki er um að ræða efnisbreytingu á ákvæðinu en í ljósi reynslu sem komin er á veitingu þessarar heimildar er lagt til að gera ákvæðið skýrara.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að koma til framkvæmda hér á landi ákveðnum þáttum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2006/46/EB um góða stjórnunarhætti skráðra félaga á skipulegum verðbréfamarkaði og reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar nr. 1569/2007/EB um eftirlit ársreikningaskrár með félögum utan EES-ríkjanna sem skrá verðbréf sín á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi.

Frumvarp það sem ég mæli fyrir var lagt fram á Alþingi í desember sl. en ekki náðist að mæla fyrir því á haustþingi. Með vísan til þess að frumvarpið var ekki afgreitt sem lög á síðastliðnu haustþingi er lagt til að gildistökuákvæði þess verði tekið til endurskoðunar í efnahags- og skattanefnd.

Að auki er rétt að vekja athygli á því að á undanförnum vikum hefur ríkisstjórnin unnið að því að auka upplýsingaskyldu félaga hvað varðar eignarhald þeirra og fyrir Alþingi liggur frumvarp hæstv. viðskiptaráðherra þar að lútandi. Fjármálaráðuneytið hefur tekið þátt í þeirri vinnu og lagt er til að samspil þessa frumvarps, sem og hins fyrra sem rætt var áðan, við frumvarp hæstv. viðskiptaráðherra verði skoðað í efnahags- og skattanefnd til að tryggja samræmi.

Ekki er gert ráð fyrir að þær breytingar sem lagðar eru fram hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni umræðu.