136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[16:02]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri ekki athugasemdir við þær gjaldtökuheimildir sem gerðar eru tillögur um í þessu frumvarpi. Ég vil hins vegar spyrja ráðherrann hvort ekki sé eðlilegt að áfram sé inni að ráðuneytið skuli setja í reglugerð ramma um þær kröfur sem gera skuli til menntunar á þessu sviði. Þá er ég að tala um að formlega verði viðurkennd t.d. háskólamenntun í landafræði, jarðfræði og líffræði.

Ég vil einnig nefna Leiðsögumannaskólann og ferðamálabrautir í framhaldsskólum landsins þannig að þau formlegu próf sem menn hafa séu viðurkennd í reglugerð en ekki sé látið í vald Umhverfisstofnunar að meta hvort próf úr Leiðsöguskólanum eða jarðfræðipróf dugi til þess að sinna landvörslu, að ég tali nú ekki um landafræðinám.