136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti á þskj. 624 um frumvarp til laga um afnám laga nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, með síðari breytingum, og breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Vigfús Áskelsson frá fjármálaráðuneyti, Þóreyju Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Guðrúnu Zoëga frá kjararáði, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Stefán Baldursson frá Bandalagi háskólamanna og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusambandi Íslands, Prestafélagi Íslands, Viðskiptaráði Íslands og Seðlabanka Íslands.

Í frumvarpinu er lagt til að lög nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, verði felld brott í því augnamiði að færa eftirlaun þeirra til samræmis við lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Frumvarpið gerir ráð fyrir að lögin gildi áfram um núverandi hæstaréttardómara og forseta Íslands út starfstíma þeirra. Þá er í frumvarpinu gerður sá almenni fyrirvari að áunnin réttindi haldist. Nefndin ræddi lagaskilaákvæði frumvarpsins með hliðsjón af því hvernig lífeyrissjóðakerfi opinberra starfsmanna er uppbyggt og með hliðsjón af því mikilvæga sjónarmiði að menn haldi áunnum réttindum.

Nefndin ræddi vægi lífeyrisréttinda í kjörum alþingismanna og ráðherra og heimildir og skyldur kjararáðs til að taka mið af þeim réttindum við ákvarðanir um laun. Þá ræddi nefndin hugmyndir um að þeir sem frumvarpið tekur til gætu valið sér lífeyrissjóð en það er í andstöðu við það fyrirkomulag að skylda almennt launafólk til að greiða lífeyrisiðgjöld í tiltekinn lífeyrissjóð.

Skemmst er frá því að segja að efnahags- og skattanefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir og Ármann Kr. Ólafsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Björgvin G. Sigurðsson, formaður nefndarinnar, var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Undir nefndarálitið skrifa sá sem hér stendur, varaformaður nefndarinnar og framsögumaður, Ellert B. Schram, Gunnar Svavarsson, Jón Bjarnason, Birkir Jón Jónsson, Pétur H. Blöndal, með fyrirvara. Ragnheiður E. Árnadóttir, með fyrirvara, og Ármann Kr. Ólafsson, með fyrirvara.

Það er óþarfi að lengja þessa umræðu mikið, frú forseti, en þó er rétt að vekja athygli á því að þessi mál hafa fengið umtalsverða umræðu í samfélaginu á liðnum árum, allt frá því að lögin árið 2003 voru sett hér á hv. Alþingi.

Um það sköpuðust miklar deilur í samfélaginu og mikið rót, ef svo má segja, og miklar almennar kröfur hafa verið uppi um að þau sérréttindi sem alþingismenn, ráðherrar og hæstaréttardómarar hafa notið í eftirlaunamálum yrðu afnumin og um þessa aðila giltu sambærileg ákvæði og um starfsmenn ríkisins.

Fyrir áramót voru þessi mál aftur til umfjöllunar þegar síðasta ríkisstjórn lagði fram frumvarp til breytingar á lögunum frá 2003 þar sem ákveðin skref voru stigin í þá átt að jafna lífeyrisréttindi þeirra hópa sem hér er verið að fjalla um við almenn lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Engu að síður var ekki gengið alla leið með þeirri lagasetningu og áfram giltu ákveðin sérréttindi um ráðherra, alþingismenn, hæstaréttardómara og forseta Íslands.

Núverandi hæstv. ríkisstjórn tók ákvörðun um að stíga þetta skref til fulls með því frumvarpi sem hún lagði fram og er hér til umræðu. Með frumvarpinu er lagt til að eftirlaunalögin frá 2003 verði felld úr gildi en þess í stað muni forseti Íslands, ráðherrar, alþingismenn og hæstaréttardómarar taka eftirlaun eða lífeyri og greiða í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, A-deild. Eftirlaunaréttur þessara aðila verður þá sá sami í öllu tilliti og opinberra starfsmanna sem greiða í þann sama lífeyrissjóð.

Hér er bæði um að ræða réttindin samkvæmt þessum lífeyrissjóði og skyldur. Þetta á þá við um iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóðinn og um þann lífeyri sem menn fá hvort sem það er til þeirra sjálfra, makalífeyrir, örorka, barnalífeyrir o.s.frv.

Verði frumvarpið að lögum er að mínu mati endanlega búið að vinda ofan af því misrétti og þeim sérkjörum sem hafa gilt í lífeyrismálum ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara og sem hafa verið, eins og ég sagði áðan, svo umdeild í samfélagi okkar. Ég tel að hér sé stigið mikilvægt skref til þess að skapa meiri sátt um fyrirkomulag þessara mála og er ánægður og stoltur af að taka þátt í því að þessi breyting eigi sér stað.

Eins og fram kom á nefndarálitinu, frú forseti, leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt. Að svo mæltu legg ég til að frumvarpið gangi til 3. umr.