136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[17:20]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom flestum sjónarmiðum mínum á framfæri við 1. umr. þessa máls. Mig langar til að gera nokkrar athugasemdir og koma með tvær fyrirspurnir til hv. þingmanns. Í fyrsta lagi tel ég að enn sé fullkomlega óskýrt, bæði af frumvarpinu sjálfu og nefndarálitinu og þeirri vinnu sem fram hefur farið í nefndinni, hvers vegna verið er að gera þetta viðamiklar breytingar á lífeyrisréttindum hæstaréttardómara og forseta Íslands. Mér finnst að það hafi verið óskýrt og að umræða hafi farið fram undir því yfirskyni að verið sé að afnema lögin frá 2003 en auðvitað er verið að gera miklu meira. Það er verið að afnema lífeyrisreglur sem hafa gilt miklu lengur en frá árinu 2003. Í mínum huga er merkilegt að svo veigamiklar breytingar skuli eiga sér stað án frekari skýringa og án umræðu og mér sýnist á þeim umsögnum sem nefndinni hafa borist að þær séu ekki einu sinni þannig að umsagnaraðilar hafi fjallað sérstaklega um þetta, þannig að þar er verið að gera miklar breytingar.

Mér finnst líka að pólitískar reykbombur séu á ferðinni um að verið sé að afnema rétt þingmanna til að þiggja eftirlaun á sama tíma og þeir gegna opinberu starfi. Það á einungis við um mjög fámennan hóp sem hefur tekið lífeyrisréttindi á grundvelli laganna frá 2003. Um framtíð geta menn gert þetta, þannig að þarna finnst mér vera pólitísk reykbomba á ferðinni. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að tvennu: Hefði ekki verið rétt að færa þessi mál til kjararáðs til framtíðar? Er ekki um skerðingu á kjörum þingmanna og annarra sem falla undir lögin að ræða sem þarf að horfa til í framtíðinni við frekari ákvarðanir kjararáðs?