136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vel kann að vera rétt hjá hv. þingmanni að skynsamlegt sé að til lengri tíma litið og til framtíðar fjalli kjararáð, sem fjallar um laun og kjör þingmanna og ráðherra, um allan pakkann, ef svo má segja, hvort sem það eru lífeyrisréttindi eða aðrar greiðslur, sem nú eru ákveðnar af forseta og forsetanefnd Alþingis. Ég held að mér sé skylt og rétt að upplýsa að á fundum nefndarinnar kom fram það viðhorf frá formanni kjararáðs að betra væri fyrir kjararáð að hafa heildarmyndina undir þegar ákvarðanir um kjör þessara hópa eru teknar — og ekki bara að hafa heildarmyndina undir heldur að hún væri í raun öll hjá ráðinu, eins og ég skildi formanninn. Að þessu var lítillega vikið í nefndarálitinu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Nefndin ræddi vægi lífeyrisréttinda í kjörum alþingismanna og ráðherra og heimildir og skyldur kjararáðs til að taka mið af þeim réttindum við ákvarðanir um laun.“

Það var fjallað um þetta og formaður kjararáðs vakti athygli á því að í lögum um kjararáð er beinlínis tekið fram að kjararáði beri að taka mið af heildarkjörum þegar það tekur ákvarðanir um laun þessara hópa. Nú er það að vísu þannig að lög hafa verið sett hér sem ganga út á það að kjörum þessara hópa verði ekki breytt á þessu ári. Ef ég man rétt gildir það til næstu áramóta ef það verður ekki framlengt og auðvitað væri algerlega úr takti við allar aðstæður í samfélaginu, eins og þær eru núna, að hrófla við því. En vel kann að vera að í framtíðinni muni kjararáð þurfa að hafa þessa heildarmynd undir þegar það tekur ákvarðanir í þessu efni. Ég skil alveg þau sjónarmið sem hv. þingmaður kemur fram með að menn séu hálfsmeykir við að fara í þá umræðu. Ég er svo sem ekkert smeykur við það en eins og sakir standa tel ég (Forseti hringir.) að það verði framtíðarinnar að leiða í ljós hvort kjararáð telur sér skylt að óbreyttum lögum (Forseti hringir.) að hafa hliðsjón af þessari stöðu þegar ákvarðanir um laun þessara hópa verða teknar.