136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

dagskrá og fyrirkomulag þingfunda.

[12:12]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að við höfum kannski ekki farið nægilega vel með tímann. Við erum þegar búin að missa 15 mínútur í þessa umræðu sem hefði getað nýst í það að hefja umræðuna sjálfa og að framsögumaður hefði talað fyrir málinu og þeir sem kunna að hafa önnur sjónarmið uppi hefðu komið sjónarmiðum sínum að. Við erum ekki búin að fara vel með fyrstu 15 mínúturnar sem við höfum hér til umráða. (RR: Ekki lengja hana þá.) Ef umræðan klárast ekki geri ég ráð fyrir að á næsta fundi, sem væntanlega verður boðaður strax að loknum þessum fundi, muni þetta mál líka koma á dagskrá þess fundar. (ÓN: Hún er ekki á dagskrá.) Forseti gat ekki vitað hvort umræðan kláraðist á þessum klukkutíma eða ekki og þess vegna kemur þetta mál væntanlega á dagskrá á næsta fundi. Ég gef mér það að umræðan verði vönduð og góð í dag og við reynum að nýta daginn sem best til að fara í þessa umræðu og ljúka henni eins hratt og kostur er og koma öllum sjónarmiðum á framfæri sem er meginatriðið.