136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

dagskrá og fyrirkomulag þingfunda.

[12:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég hlýddi með undrun á ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Hann ætlast til að þingið ræði mál hans á eingöngu u.þ.b. klukkutíma og hann ber ekki meiri virðingu fyrir málinu en svo. Mér finnst það alveg með ólíkindum. Hann ber heldur ekki meiri virðingu fyrir þingmönnum en svo að við megum ekki tjá okkur um það hvernig störfum þingsins og stjórn þess verði háttað í dag. Ég bara neita því að ég megi ekki ræða hér um það hvernig störfum þingsins verður háttað í dag. Ég beini því til forseta að það sé undarlegt að halda fyrst fund, síðan annan fund þar sem málið er ekki á dagskrá og svo þriðja fundinn þar sem málið verður á dagskrá.