136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

fundarstjórn.

[12:20]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nú háttar svo til að við erum að fara í atkvæðagreiðslu um mikilvægt mál, eftirlaun ráðherra, þingmanna o.s.frv. Í gær var fyrri hluti 2. umr. um þetta mál og fyrir þeim fundi lá nefndarálit frá gervallri allsherjarnefnd sem var út af fyrir sig ánægjulegt að sjá. Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins, forseti, skrifuðu undir það nefndarálit með fyrirvara. Einn af þeim gerði grein fyrir fyrirvara sínum í gær, hv. þm. Pétur Blöndal, og það var nokkuð um þann fyrirvara rætt og breytingartillögur hv. þingmanns við þetta frumvarp. Hinir tveir þingmennirnir, hv. þingmenn Ragnheiður Elín Árnadóttir og Ármann Kr. Ólafsson, skýrðu hins vegar ekki fyrirvara sinn við frumvarpið, þannig að við erum jafnnær um það hvaða álit þeir hafa og hvers vegna þeir gerðu fyrirvara við frumvarpið. Þessir tveir þingmenn, forseti, Ragnheiður Elín Árnadóttir hv. þm. og kollega hennar Ármann Kr. Ólafsson, eru heldur ekki hér í salnum við þessa atkvæðagreiðslu og geta ekki upplýst okkur um hvaða álit þau hafa á þessu frumvarpi sem veldur því að þau gera fyrirvara við það. Þau hafa heldur ekki fjarvistarleyfi. Ég spyr forseta um það hvort ekki þurfi að áminna þingmenn um það þegar þeir gera fyrirvara við frumvörp að skýra þann fyrirvara út með einhverjum hætti (Forseti hringir.) og mæta til atkvæðagreiðslu um þau mál sem þeir leggja hér fyrir.