136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

fundarstjórn.

[12:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Virðulegur forseti. Þetta er dálítið undarleg umræða að mörgu leyti. Í umræðu um þetta mál í gær kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal hvaða fyrirvara hann og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera við þetta mál. Jafnframt kom fram sérstakur fyrirvari hv. þm. Péturs H. Blöndals við tiltekna þætti málsins sem lýtur ekki að sömu fyrirvörum og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa. Ég gerði að vísu athugasemd við það að fyrirvarinn sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins gerðu kom ekki fram í umræðu á vettvangi efnahags- og skattanefndar en látum það liggja á milli hluta.

Nefndarálitið er afgreitt með atbeina allra þingmanna nefndarinnar og það kom engin ósk um það á vettvangi hennar að málið gengi til nefndar á milli 2. og 3. umr. Ég mælist til þess að menn komi ekki með þá ósk hér en við því verður að sjálfsögðu orðið ef það er krafa þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins. Hitt er svo annað mál að að sjálfsögðu geta menn tekið til máls við 3. umr. Það er ekkert sem bannar það að menn taki til máls við 3. umr. um mál og geri grein fyrir sínum fyrirvara ef þeir telja að það vanti eitthvað upp á að hann hafi komið skilmerkilega fram.