136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

fundarstjórn.

[12:28]
Horfa

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er eiginlega að verða með ólíkindum hvernig umræður fara fram hér í þingsal. Hér hefur komið fram að hv. þm. Mörður Árnason áttaði sig ekki á þessu, enda afar óvenjulegt í þingsögunni að hv. þm. Pétur Blöndal tali fyrir munn fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokksins en sinn eigin. Það mál hefur hins vegar verið upplýst nú og þar af leiðandi er algjör óþarfi og alveg stórsérkennilegt að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, óski eftir frestun umræðunnar eða að málið fari í nefnd milli 2. og 3. umr. Skrípaleikur Sjálfstæðisflokksins hér er að verða með algjörum ólíkindum.

Virðulegur forseti. Ég verð að segja fyrir mína hönd, og trúlega mun fleiri, að mér er algjörlega nóg boðið.