136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[12:33]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum enn á ný að greiða atkvæði um hið svokallaða eftirlaunamál. Við vorum með það til umfjöllunar fyrir ekki löngu og þá voru Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin í ríkisstjórn. Þegar sú umræða fór fram fann maður að Samfylkingin var með mikið óbragð í munninum þegar atkvæði voru greidd um það mál. Tilhneigingin var sú hjá samfylkingarmönnum að stíga það skref sem nú er stigið, að fara inn í A-deildina. Stjórnarandstaðan þá flutti einmitt mál um að við færum inn í A-deildina hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Nú er verið að stíga það skref. Það að afgreiða málið í þokkalegri sátt sýnir að Alþingi getur tekið góðar ákvarðanir á stuttum tíma. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin vildu ekki gera þetta fyrir stuttu en nú erum við (Forseti hringir.) nánast öll sammála um að stíga þetta skref. Vil ég fagna því sérstaklega.