136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[13:19]
Horfa

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ber fulla virðingu fyrir því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu andvígir þessum breytingum, ég virði þá skoðun alveg. Mér finnst hins vegar lágmark að gera þá kröfu til þeirra að þeir fjalli efnislega um það sem hér er lagt fram, leggi fram rök fyrir þeim sjónarmiðum sem gera það að verkum að þeir eru ekki tilbúnir að ganga þessa leið en séu ekki fyrst og fremst að hengja sig í formfestu eða kalla eftir viðhorfum annarra. Það er verið að kalla eftir viðhorfum þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Ég vísaði til þess í greinargerð með frumvarpinu að vakin sé athygli á því að fleiri leiðir séu færar en sú sem lagt er upp með í frumvarpinu. Frumvarpið er fullbúið, frumvarpið er algjörlega klárt, það liggur fyrir. Það er ekki þar með sagt að fleiri leiðir séu ekki færar, eins og ég rakti í framsögu minni, og víða má finna í löndunum í kringum okkur. (GHH: Jafnvel betri.) Jafnvel betri, það er eitthvað sem getur vel verið.

Hér er hins vegar lagt upp með mjög einfaldar breytingar. Flokkarnir eða þeir sem bjóða fram til Alþingis geta valið um það hvort þeir hafa óraðaðan eða raðaðan lista, það er allt og sumt. Ég svaraði þessari fyrirspurn áðan í andsvari þar sem einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins spurði mig eiginlega hvort ég teldi ekki alveg ófært að kjósendur réðu við það verkefni að raða upp í númeraröð. Ég leyfi mér að fullyrða að almenningur í þessu landi fer létt með að raða þeim á óraðaðan lista sem þeir telja æskilegt að nái kjöri inn á þing.

Hér er verið að auka lýðræði, út á það gengur hugmyndin, að gefa kjósendum aukið vægi og meira val um að velja hverjir nái sæti á Alþingi. Það hefur komið fram í andsvörum að hv. þingmenn (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins eru andvígir þessari leið (Forseti hringir.) og ég geri þá kröfu til þeirra að þeir færi (Forseti hringir.) efnisleg rök fyrir máli sínu.