136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

endurúthlutun aflaheimilda.

[14:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að ræða aðeins um málefni sjávarútvegsins. Ég held að það sé óumflýjanlegt að fara nokkrum orðum almennt um stöðuna í þeirri grein. Ég hef m.a. fundað undanfarna daga með ýmsum forustumönnum sjávarútvegsins og því miður er þaðan ekki sérstaklega góðar fréttir að hafa. Það þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart.

Sjávarútvegurinn, rétt eins og auðvitað margar fleiri atvinnugreinar og þjóðarbúið allt, glímir nú við mjög mikla erfiðleika. Þeir lýsa sér m.a. í umtalsverðu verðfalli afurða, 30–40% á ári eða svo, talsverðri birgðasöfnun sem er hafin á nýjan leik og tregari sölu afurða og miklum erfiðleikum við að fjármagna það birgðahald nema þá með gríðarlegum kostnaði eins og vaxtastigið er enn hér á landi, því miður. Við erum jafnvel farin að fá fregnir af uppsögnum þar sem fyrirtæki eru að draga úr vinnslu af þeim ástæðum sem ég nefndi, birgðasöfnun, verðfalli og erfiðleikum við að fjármagna reksturinn.

Gjaldeyrisvarnarsamningamál sjávarútvegsins eru því miður enn óleyst og lítur ekkert sérstaklega vel út með að það gerist nema þá fyrir dómstólum. Við urðum fyrir áfalli fyrst á síldarvertíðinni og síðan á loðnuvertíð sem að mestu leyti hefur brugðist og það verður því að segja það eins og er, virðulegur forseti, að það hefur satt best að segja fátt lagst með okkur í þessum efnum á undanförnum mánuðum.

Þar til viðbótar má nefna að frændur okkar, Norðmenn, sem eiga digra sjóði — og ég er þekktur fyrir að tala oft hlýlega um — hafa núna sett umtalsverða fjármuni inn í að styrkja greinina í formi verulegra fjármuna til útflutningstrygginga og til markaðsaðgerða og sú hætta er augljóslega fyrir hendi að þessar aðstæður kalli á undirboð eða bjóði upp á hættuna á undirboði eða bjóði upp á hættuna af undirboðum. Ég held þess vegna, herra forseti, að það sé óumflýjanlegt að öll umræða um sjávarútvegsmál, hvort sem hún er um afmarkaða þætti eða kerfismálin í heild sinni, hljóti að verða í ljósi þessarar erfiðu stöðu greinarinnar. Við verðum að tala af mikilli ábyrgð um þá alvarlegu stöðu sem greinin stendur í í augnablikinu og er kannski okkar brýnasta verkefni að reyna að takast á við. Hvernig tryggjum við að erfiðleikarnir valdi ekki enn frekari áföllum, rekstrarstöðvun og uppsögnum í sjávarútveginum á næstu vikum og mánuðum?

Það er augljóst mál að sú ríkisstjórn sem nú situr er ekki stofnuð um það að ráðast í grundvallarkerfisbreytingar á t.d. fiskveiðistjórnarkerfinu. Hún hefur efst á sínum verkefnalista björgunaraðgerðir í þágu heimila og auðvitað atvinnulífs og þar á meðal sjávarútvegsins. Ég get nefnt sem dæmi frumvarp sem liggur nú fyrir þinginu um greiðsluaðlögun fyrir atvinnulífið sem ég geri ráð fyrir að þingið hafi fullan hug á að greiða fyrir. Það er ekki stór aðgerð, en hjálpar þó það litla sem það er. Megin- og forgangsverkefnið er að ná niður vöxtum. Það kæmi sjávarútveginum, ekki síður en öðrum greinum, betur en eiginlega allt annað sem gæti gerst á næstu mánuðum að vaxtastigið færi hratt niður og verðbólga lækkaði.

Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra úthlutaði nokkru áður en hann fór úr embætti 30 þúsund tonna viðbótaraflaheimildum í þorski á þessu fiskveiðiári og gaf reyndar vilyrði um 30 þúsund tonna aukningu á hinu næsta sem að sjálfsögðu er ekki bindandi, eingöngu viljayfirlýsing af hans hálfu, en ákvörðunin fyrir árið í ár er bindandi og verður ekki aftur tekin. Þar af leiðandi eru málin hvað þetta varðar algerlega bundin á þessu kjörtímabili og það væri ekki í valdi núverandi ríkisstjórnar sem starfar í fáeina mánuði að gera þar grundvallarbreytingar á. Stóra verkefnið hlýtur að bíða næsta kjörtímabils, að takast á við grundvallarleikreglur í sjávarútvegsmálum rétt eins og á mörgum öðrum sviðum. Ég legg að sjálfsögðu áherslu á að sjávarútvegsmálin þurfa að verða til umræðu í kosningabaráttunni eins og hv. málshefjandi sagði. Það er eðlilegt að gera þá kröfu til flokkanna að þeir tefli með ábyrgum hætti fram áherslum sínum, þar á meðal hvar það varðar að endurskoða kerfið með það að markmiði að ná um það betri sátt, verkefni sem menn hafa lengi glímt við en ekki tekist. Við þekkjum atrennur að því í kosningabaráttu á undangengnum árum, í undangengin tvö, þrjú skipti, og vitum hvernig það hefur farið. Að lokum hafa þá myndað hér meiri hluta stjórnmálaflokkar sem hafa í aðalatriðum staðið vörð um óbreytt kerfi og þarf ekki að minna hv. þingmann á það. Hann tilheyrði lengi einum þeirra, Framsóknarflokknum, og gerir nú aftur, flokknum sem hefur staðið nokkuð dyggan vörð um kvótakerfið eins og það hefur verið.

Ég tel eðlilegast að málflutningur um stefnu einstakra flokka færist senn úr þingsölum yfir í kosningabaráttuna. Þar tek ég undir með hv. málshefjanda, það á að gera þá kröfu að flokkarnir leggi með ábyrgum og skýrum hætti fram áherslur sínar. Það munum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði (Forseti hringir.) gera og ég get lofað hv. þingmanni því (Forseti hringir.) og upplýst hann, hv. málshefjanda, um (Forseti hringir.) að á landsfundi flokksins (Forseti hringir.) 20.–22. mars mun ný sjávarútvegsstefna (Forseti hringir.) okkar líta dagsins ljós.