136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

endurúthlutun aflaheimilda.

[14:12]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Við ræðum í utandagskrárumræðu um endurúthlutun aflaheimilda. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, málshefjandi, fór yfir það í framsögu sinni og byrjaði á að vitna í skoðanakannanir þar sem fram kemur að einhver tiltekinn hópur innan þjóðfélagsins vilji breytingar á kerfinu og hann nefnir einhverja tiltekna hópa innan hinna ýmsu stjórnmálaflokka. Mér er spurn, herra forseti: Ætlum við á Alþingi að breyta lögum og rekstrarskilyrðum atvinnulífsins eftir því hvað skoðanakannanir segja hverju sinni? Við erum að tala um miklu alvarlegri mál (Gripið fram í.) en svo að það eigi að lesa skoðanakannanir hinna ýmsu stofnana eða fyrirtækja sem að slíku verki standa. Við verðum að huga að því að sjávarútvegurinn er okkar mikilvægasta atvinnugrein í þessu landi í dag sem aflar mests gjaldeyris fyrir okkur og við þurfum að búa þannig um hnútana að þessi atvinnugrein búi við rekstraröryggi þannig að þeir sem reka og hafa fjárfest í þessum fyrirtækjum viti að hverju þeir ganga. (Gripið fram í.) Þetta eru hlutir sem skipta þessa aðila langmestu máli og legg ég áherslu á það. Við megum ekki fara að rugga þessum bát eftir einhverjum skoðanakönnunum eða breyttum vindáttum, ég tala nú ekki um ef ástæðurnar eru þær að hv. málshefjandi er að skipta um flokk og þarf að koma á framfæri sínum skoðunum frá því sem var þegar hann var í Frjálslynda flokknum. Ég minni á að Frjálslyndi flokkurinn var með þingsályktunartillögu um innköllun aflaheimilda. Ég tel að svona umræða sé stórhættuleg á þeim tíma sem við lifum nú í þessu landi.