136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

endurúthlutun aflaheimilda.

[14:17]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Miðað við þau orð sem hér voru látin falla af síðasta hv. þingmanni mætti ætla að breytingar væru í farvatninu því hér talaði stjórnarsinni, þingmaður sem styður núverandi ríkisstjórn og studdi síðustu ríkisstjórn. Það er ekki hægt fyrir Samfylkinguna að vera stöðugt í ríkisstjórnum og þykjast svo ekki geta náð því fram sem hún væntanlega vill gera í sambandi við stórpólitískt mál eins og hér um ræðir.

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég var nokkuð ánægð með ræðu hæstv. ráðherra áðan og fannst hann tala af meiri ábyrgð en oft áður og heilmikilli ábyrgð í sambandi við þá mikilvægu atvinnugrein sem við erum að tala um. Því það er nú meira en að segja það þegar ástandið er eins og það er í þjóðfélaginu að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu og allri þeirri atvinnugrein en samkvæmt tölum frá 2007 — ég hef ekki tölur frá síðasta ári — var yfir 40% af vöruútflutningi sjávarafurðir og um 30% útflutnings vöru og þjónustu, hvorki meira né minna.

Hvar stæðum við Íslendingar í dag ef við hefðum ekki þessa dýrmætu auðlind sem við getum verið eitthvað ósammála um hvernig eigi að nýta? Þó tel ég að það sé nú ekki eins mikil ósamstaða um það og þær tölur gefa til kynna sem hv. málshefjandi hér fór yfir. Kannski er skiljanlegt að fólk svari með þessum hætti þegar það er lítil upplýst umræða um þessa mikilvægu atvinnugrein. Það er talað í upphrópunum og klisjum en það er of lítil uppbyggileg umræða.

Ég óttast, hæstv. forseti, að nú sé að hefjast þetta venjulega kapphlaup sem skellur á rétt fyrir kosningar þar sem þessi mikilvæga atvinnugrein verður töluð niður. Ég óttast það og ég mun ekki taka þátt í þeirri umræðu enda fer að fækka mínum dögum á þessu virðulega Alþingi.