136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

endurúthlutun aflaheimilda.

[14:24]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Mikil hagræðing hefur átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum árum. Fyrirtækin hafa fjárfest í nýjum skipum, tækjum og búnaði og miklar fjárfestingar hafa átt sér stað í aflaheimildum. Allt hefur þetta aukið framleiðni og bætt framlegð. En skuldir hafa vaxið.

Til að tryggja stöðugleika í rekstri sjávarútvegsfyrirtækjanna sem er grundvöllur fyrir lánstraust og langtímaviðskiptasambönd þurfa þau að hafa það tryggt að aflaheimildir þeirra séu varanlegar. Íslenskur sjávarútvegur er arðbær atvinnugrein án allra ríkisstyrkja. Íslensk útgerðarfyrirtæki standa og falla með eigin gerðum og ákvörðunum. Má því nefna að sjávarútvegur í samkeppnislöndum okkar er stórlega ríkisstyrktur, til dæmis í Noregi er hann styrktur um milljarða króna. ESB veitti 2 milljörðum evra á síðasta ári í styrki til útgerðarfyrirtækja eða 290 milljörðum íslenskra króna.

Aflamarkskerfið er grundvöllur þess að á Íslandi er rekinn sjálfbær og arðbær sjávarútvegur. Markmið íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins er að vernda fiskstofnana og hámarka arðsemi nýtingu þeirra.

Hvernig ætlum við sem þjóð að nýta þessa auðlind til framtíðar? Grundvallaratriði fiskveiðistjórnarkerfisins er að til séu leikreglur sem fylgt er til langframa. Rekstrarumhverfið þarf að vera varanlegt svo hægt sé að skipuleggja rekstur og fjárfestingu til lengri tíma. Stöðugleiki þarf að ríkja um stjórnkerfi veiðanna. Forgangsverkefnið er að ná jafnvægi í gengi krónunnar á Íslandi í dag og koma í veg fyrir mikla verðbólgu og lækka vexti og tryggja rekstur atvinnufyrirtækja hvort sem það er í sjávarútvegi eða öðrum atvinnugreinum. Nauðsynlegt er að styrkja gjaldeyrisforðann og koma gjaldeyrismarkaðnum í rétt horf svo að íslenskur sjávarútvegur standi á traustum fótum.