136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

endurúthlutun aflaheimilda.

[14:33]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem hér hefur farið fram. Hún hefur varpað skýru ljósi á afstöðu ræðumanna til viðfangsefnisins og ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir almenna yfirferð yfir stöðu sjávarútvegsins.

Það var ekki tilefni umræðunnar heldur leikreglurnar í kerfinu sem menn ákveða til langs tíma. Það liggur ljóst fyrir og hefur legið fyrir lengi að mikil óánægja er með leikreglurnar meðal þjóðarinnar og mikill meiri hluti stuðningsmanna þriggja stjórnmálaflokka af fjórum, sem mældir voru í könnuninni, er mjög óánægðir með þær leikreglur og vill breyta þeim.

Menn eru óánægðir með það að byggðarlög geti lent í þeirri stöðu, sem ítrekað hefur komið upp, að öll atvinna sópast í burtu vegna ákvörðunar eins manns eða eins fyrirtækis um að framselja veiðiheimildir úr plássinu. Það á ekki bara við lítil þorp eins og vestfirsku þorpin heldur stóra bæi eins og Akranes. Menn geta kallað það stöðugleika að hægt sé að gera Akranes að fisklausum bæ en það er ekki stöðugleiki, virðulegi forseti, og ekki sú framtíð sem þjóðin vill sjá í leikreglum þessa kerfis. Það er heldur ekki stöðugleiki eða ánægja með það að einstaka útgerðarmenn geti selt veiðiheimildir á svo háu verði að í dag er vandséð hver ætlar að borga það. Verðið var um það bil 4.000 kr. á hvert kíló og þau liggja núna sem skuldir í bönkum ríkisins. Ætlar sjávarútvegurinn að borga þessar skuldir, virðulegi forseti, eða lenda þær á þjóðinni?

Hvers konar kerfi er það sem getur gert mönnum kleift að taka út peninga og varpa skuldaböggunum síðan yfir á skattgreiðendur? Það er ekki ásættanlegt kerfi, virðulegi forseti. Staðan er sú að í sjónmáli er ríkisstjórn, sú sem nú situr með hugsanlegum viðbótarstuðningi, þar sem yfirgnæfandi meiri hluti stuðningsmanna hennar gerir kröfur (Forseti hringir.) um breytingar. Hér á þingi þar sem fer fram þjóðfundur ber æðstu (Forseti hringir.) forustumönnum þessara flokka að svara þjóðinni: Ætla þeir að svara kalli stuðningsmanna sinna?