136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

stjórnarskrárbreytingar og stjórnlagaþing.

295. mál
[14:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um áform ríkisstjórnarinnar hvað varðar stjórnarskrárbreytingar og stjórnlagaþing á þessu vorþingi.

Ég tek fram að sumt í þessum áformum ríkisstjórnarinnar hefur skýrst nokkuð frá því að ég lagði fyrirspurnina fram fyrir þremur vikum og bið ég því hæstv. forsætisráðherra að staldra kannski ekki lengi við þau atriði. Mér finnst meira máli skipta að svör komi fram við þeim atriðum sem hvorki almenningur né þingmenn hafa almennilega fengið svör við enn sem komið er.

Til upprifjunar voru spurningar mínar á þskj. 521 eftirfarandi:

„1. Hver eru áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarskrá fyrir kosningar í vor?

2. Hver eru áform ríkisstjórnarinnar um pólitískt samráð um þessar breytingar?

3. Telur ráðherra að nægur tími sé til þess á þeim stutta tíma sem er til kosninga að gera breytingar á stjórnarskrá?

4. Hvaða sjónarmið voru lögð til grundvallar þegar nefndarmenn voru valdir í sérstaka ráðgjafarnefnd vegna fyrirhugaðra stjórnarskrárbreytinga?

5. Hvernig samrýmast áform ríkisstjórnarinnar um að breyta stjórnarskrá fyrir vorið hugmyndum sem einnig hafa verið kynntar um að setja á fót stjórnlagaþing síðar á þessu ári?“

Eins og ég sagði áðan hefur ýmislegt skýrst í áformum ríkisstjórnarinnar, einkum hvað varðar efnisatriði þeirra stjórnarskrárbreytinga sem ríkisstjórnin hyggst leggja til. Það sem hins vegar vekur enn spurningar eru atriði eins og hvernig hinu pólitíska samráði verði háttað, hvernig ríkisstjórnin sjái fyrir sér tímann til þessara breytinga og síðast en ekki síst lokaspurningin, hvernig ríkisstjórnin telji að það gangi upp, bæði praktískt og röklega séð, að leggja annars vegar fram nokkrar hugmyndir um efnislegar breytingar á stjórnarskránni og hins vegar tillögur um stjórnlagaþing sem taka ætti til starfa síðar á árinu og hafa það hlutverk að vinna að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

Í mínum huga er einhver óskapleg mótsögn í því fólgin, annars vegar að ætla að breyta stjórnarskránni í vor og hins vegar að setja síðan á fót stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrána í heild. Ég óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra útskýri þann þátt örlítið fyrir okkur.