136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

stjórnarskrárbreytingar og stjórnlagaþing.

295. mál
[14:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli því sem kom fram hjá einum hv. þingmanni að þessi ríkisstjórn leggi meiri áherslu á breytingar á stjórnarskránni en að grípa til mikilvægra aðgerða fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Það vita allir að þessi ríkisstjórn hefur sett það í forgang að setja fram aðgerðir fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og mörg þeirra mála hafa þegar komið fyrir þingið og eru í meðferð í þingnefndum. En við höfum líka lagt áherslu á þær lýðræðisumbætur í stjórnarskránni sem mikið hefur verið kallað eftir og þingmenn sem hér hafa setið lengi vita vel að það gengur mjög hægt að ná fram breytingum á stjórnarskránni í þeim stjórnarskrárnefndum sem hafa rætt um þessi mál.

Þó að við förum í umbætur núna á stjórnarskránni hvað varðar náttúruauðlindir og síðan breytingu varðandi það að fólk geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu og aðferðir við breytingar á stjórnarskrá þá hefur stjórnlagaþingið veigamikið hlutverk þótt þessi mál komi núna inn í stjórnarskrána. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi farið yfir frumvarp til laga um stjórnlagaþing sem fylgir sem drög með gögnum sem hafa farið til þingflokkanna. Valdsvið þessa þings er mikið og það getur sjálft ákveðið og afmarkað sitt valdsvið. En það er sérstaklega bent á að eftirfarandi þættir skuli teknir til athugunar: Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra. Þetta er stórt og afar þýðingarmikið mál sem talað er um að stjórnlagaþing fjalli um. Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála. Hlutverk og staða forseta Íslands. Og ekki síst, ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.

Ég held að það sé afar brýnt að stjórnlagaþing fjalli einmitt um þessi mál sem hefur reynst mjög erfitt að ná samstöðu um á löggjafarsamkundunni, eins og breytingar á kosningum og kjördæmaskipan þar sem þingmenn eru einatt að máta sig inn í þær tillögur sem eru fyrir hendi hverju sinni. Þarna hefur stjórnlagaþing stór og mikil verkefni að (Forseti hringir.) vinna og getur auðvitað tekið til skoðunar þau ákvæði sem stjórnarflokkarnir leggja áherslu á að fari núna inn í stjórnarskrána ef því svo sýnist.