136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

tillögur nefndar um endurreisn bankakerfisins.

320. mál
[14:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðfinna S. Bjarnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Biðin eftir því að hæstv. ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hrindi í framkvæmd raunhæfum aðgerðum til þess að endurreisa bankakerfið er skelfileg, því að án heilbrigðs bankakerfis getur atvinnulífið ekki þrifist. Ef ekki er ráðist til atlögu við þetta vandamál af fullum þunga má búast við enn frekari ógæfu í íslensku samfélagi, auknu atvinnuleysi og frekari gjaldþrotum heimilanna í landinu.

Hæstv. ríkisstjórn sendi frá sér þann 1. febrúar 2009 svokallaða Verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þar kemur fram, með leyfi forseta, að hún var mynduð til að hrinda í framkvæmd brýnum og mikilvægum aðgerðum, einkum í þágu heimila og atvinnulífs, til endurreisnar bankakerfisins o.s.frv.

Undanfarnar vikur höfum við kynnst nokkrum af þeim málum sem hæstv. ríkisstjórn forgangsraðar og metur þau brýnustu til að leysa úr þeim bráðavanda og því neyðarástandi sem ríkir í efnahagsmálum. Því miður verður að segjast eins og er að flest mál ríkisstjórnarinnar eru að mínu mati þess eðlis að þau gætu vel beðið fram yfir kosningar. Hér vantar snerpu, skerpu og þor til að takast á við það sem máli skiptir. Kjarni málsins er að við þurfum starfhæfa banka. Við þurfum að einbeita okkur að endurreisn bankakerfisins.

Fyrirspurnir sem lagðar eru fyrir hæstv. forsætisráðherra voru settar fram eftir að fregnir bárust af skýrslu nefndar um endurreisn bankakerfisins undir stjórn Mats Josefssons. Þær voru settar fram áður en ég fékk tækifæri til að heyra hann sjálfan skýra frá tillögum sem birtust í skýrslu sem hann hefur kynnt. Nú hef ég sem sagt séð þessar tillögur. Ég hlakkaði mikið til að sjá þær og kynnti mér þær rækilega og var svo tilbúin að vera opin, því að í dag styð ég allar þær ríkisstjórnir og allt það sem gert er til að stuðla að heilbrigði í atvinnulífi okkar og á heimilum landsins. Við verðum að reisa við bankakerfi okkar og þar með atvinnulífið. Það voru því vonbrigði að kynnast tillögum nefndarinnar um endurreisn bankanna því að tillögurnar eru mjög loftkenndar. Svona tillögur eru einskis virði nema þeim fylgi aðgerðabinding.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra um þessar tillögur í fjórum liðum og þar sem tími gefst ekki til að endurtaka allar spurningarnar læt ég þá fyrstu nægja: Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir tillögum sem nefnd undir stjórn Mats Josefsson hefur kynnt? Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa?