136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

tillögur nefndar um endurreisn bankakerfisins.

320. mál
[15:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég held einmitt að það sé margt athyglisvert í tillögum Mats Josefssons enda var hann fenginn hingað til þess að fara yfir þessi mál og við vissum það þegar við réðum hann á sínum tíma að þar væri afar fær og hæfur maður á ferð. Við eigum eftir að rýna betur í þær tillögur en lykilatriðið í þessu öllu saman er að koma bankakerfinu af stað að nýju til þess að fyrirtækin geti fengið ákveðin svör við vandamálum sínum og ekki síður heimilin.

Ég verð því miður að lýsa yfir vonbrigðum með eitt atriði og það er að efnahagsreikningur bankanna skuli ekki liggja fyrir fyrr en í fyrsta lagi í apríl. Það er allt of seint miðað við þær upplýsingar sem við höfðum í síðustu ríkisstjórn. Það er ekki rétt hvað þetta atriði varðar að ekki hafi verið hægt að leggja fram ákveðnar upplýsingar í febrúar, í síðasta lagi í mars, þannig að hægt væri að setja af stað bankakerfið. Nú liggur fyrir að það verður ekki fyrr en í apríl. Við skulum bíða og sjá hvernig fram vindur en við megum engan (Forseti hringir.) tíma missa til þess að svara fyrirtækjunum og heimilunum í landinu, frú forseti, við megum engan tíma missa. En við munum styðja þær aðgerðir frá ríkisstjórninni (Forseti hringir.) sem lúta að því að efla fyrirtækin í landinu, þannig að það sé undirstrikað.