136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

tillögur nefndar um endurreisn bankakerfisins.

320. mál
[15:05]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er rétt sem fram hefur komið í þessari umræðu að eitt brýnasta verkefnið sem blasir við okkur í því efnahagshruni sem er staðreynd á Íslandi í dag er að koma bönkunum í starfhæft form.

Ég hjó eftir því hjá hæstv. forsætisráðherra að hún sagði að dregist hefði hjá fyrri ríkisstjórn að fylgja eftir tillögum þess sérfræðings sem við höfum rætt um og ég spyr: Hvernig stendur á því? Ég spyr líka, hæstv. forseti: Hver ber ábyrgð á því að fyrri ríkisstjórn dró lappirnar í því að setja af stað og fylgja eftir þeim tillögum sem við ræðum hér, grundvallartillögum sem eiga m.a. að koma bönkunum í starfshæft form á ný?

Þetta er mjög alvarlegt, hver dagur er dýrmætur. Við þurfum að skoða þessar tillögur og koma fram með lausnir og úrræði. Það höfum við framsóknarmenn verið að gera á vettvangi Alþingis á síðustu dögum og ég spyr enn á ný, vegna (Forseti hringir.) þess að mér finnst mikilvægt að svör komi við þeirri spurningu: Hver ber ábyrgð á því að fyrri ríkisstjórn dró lappirnar í þessu máli?