136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

einföldun á almannatryggingakerfinu.

338. mál
[15:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram) (Sf):

Hæstv. forseti. Á vordögum árið 2007 þegar allt lék í lyndi var mynduð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og lagður fram stjórnarsáttmáli sem m.a. fól í sér að endurskoða skyldi almannatryggingakerfið. Reyndar var mörgu komið í verk í framhaldi af þeirri stjórnarmyndun á meðan sú stjórn sat, tekjutenging maka var afnumin, persónuafsláttur og skattleysismörk hækkuð og svo mætti áfram telja.

Í samræmi við stjórnarsáttmálann var sett á laggirnar nefnd til að stokka upp þetta flókna og stundum rangláta kerfi og regluverk sem hefur flækt greiðslu bóta og réttindi bæði aldraðra og öryrkja. Öllum er ljóst að öll viðmið og aðstaða í tryggingabótakerfinu hafa laskast verulega í kjölfar bankahrunsins og fjármálakreppunnar. Engu að síður og kannski þess vegna er enn brýnna en fyrr að gera lagfæringar og standa vörð um almannatryggingakerfið.

Mér er kunnugt um að nefndin, sem sett var á laggirnar undir forustu Stefáns Ólafssonar prófessors, hefur starfað áfram þrátt fyrir hrunið og stjórnarskiptin og ég leyfi mér því að beina þeirri spurningu til hæstv. félagsmálaráðherra hvort einhverjar niðurstöður liggi fyrir, hvort nefndin hafi skilað tillögum eða hvort ekki megi treysta því að endurskoðun og uppstokkun tryggingakerfisins séu enn á dagskrá stjórnvalda.

Engum blandast hugur um að á erfiðum tímum í þjóðarbúskapnum er eitt af forgangsverkefnunum að treysta velferðina og velferðarnetið og áríðandi að það sé réttlátt og skilvirkt og komi skjólstæðingum Tryggingastofnunar ríkisins að sem bestum notum. Ég spyr því, virðulegur forseti, og beini spurningu minni til hæstv. félagsmálaráðherra: Hver er staðan í þessum málum nú um mundir?