136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

einföldun á almannatryggingakerfinu.

338. mál
[15:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ellerti B. Schram fyrir að spyrja þessarar mikilvægu spurningar því að beðið er eftir því að við fáum einhverja niðurstöðu í þessi mál og við hljótum öll að stefna að því að þeir fjármunir sem við setjum í almannatryggingakerfið skili sér fyrst og fremst til þeirra sem þurfa á því að halda. Ég held að við getum öll verið sammála um að kerfið sem við búum við í dag er því miður ógagnsætt og flókið, fólk á erfitt með að skilja það og þess vegna er mikilvægt að einfalda það eins og kostur er. Einsýnt er að ný ríkisstjórn mun innleiða nýtt og einfaldara almannatryggingakerfi. Ég vona að við framsóknarmenn fáum aðkomu að þeirri vinnu að afloknum kosningum og við lýsum okkur reiðubúna til að stuðla að því að íslenska almannatryggingakerfið verði öryggisnet sem hjálpar þeim sem þurfa á samfélagslegri aðstoð að halda og við hljótum að stefna að því að búa til betra og einfaldara kerfi til að skapa betra Ísland.