136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

einföldun á almannatryggingakerfinu.

338. mál
[15:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. alþingismönnum sem hér hafa tekið til máls og þakka þeim fyrir skilning sem ég held að endurspegli þann samhljóm sem er í þingsölum og í þjóðfélaginu að standa þurfi vörð um almannatryggingakerfið hvernig svo sem öllu reiðir af að öðru leyti. Ég færi líka hæstv. félagsmálaráðherra þakkir fyrir þær upplýsingar sem hér eru gefnar. Þær eru rifjaðar upp bæði af honum og mér að margt gott hefur verið gert síðan 2007 til bóta fyrir þetta kerfi og nú er sem sagt unnið hörðum höndum að því að leggja fram skilvirkari og stærri skýrslu um einföldun og gagnsæi í kerfinu, sem því miður hefur stundum verið allt of flókið og kannski ekki allt of skilvirkt og hefur falið í sér margvíslegar skerðingar sem hinn venjulegi almúgi á erfitt með að átta sig á.

Hér er um að ræða ánægjulegar upplýsingar og merkilegt grundvallarmál sem snýr að því að verja velferðina og þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu og lágmarka þann skaða sem hinir lægst settu bera af þeim áföllum sem þjóðin hefur orðið fyrir. Ég sendi hæstv. ráðherra mínar bestu stuðningskveðjur og hvet til þess að þetta starf haldi áfram og við sjáum eitthvert ljós í þeirri skýrslu sem ráðherrann á von á seinna í vetur.