136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

einföldun á almannatryggingakerfinu.

338. mál
[15:43]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu og tek undir með þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í henni að þetta er eitt mikilvægasta málið í dag við þessar aðstæður. Það almannatryggingakerfi sem við eigum er okkur ákaflega dýrmætt og við verðum að standa vörð um þá sem treysta á það.

Varðandi það sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson nefndi þá er búið að koma inn í lögin lágmarksframfærsluviðmiði til að tryggja að enginn búi við tekjur undir framfærslu. Nefndin er að vinna í því og það verður unnið áfram, ég á von á því að fá tillögur í þessum mánuði og tel mjög mikilvægt að nefndin hraði störfum sínum. Það er alveg rétt að kerfið er allt of flókið, við verðum að einfalda það og það verður að vera gagnsætt.

Ég heimsótti Tryggingastofnun ríkisins í gær og hitti allt starfsfólkið. Þar kom fram hversu mikilvægt er að fólk skilji hvað það fær frá stofnuninni, annars er hætta á að traust á hana verði ekki eins og það ætti að vera, þannig að við verðum að stíga þau skref fljótt að einfalda og auka gagnsæið og þetta verður að vera það öryggisnet sem því er ætlað. Möskvarnir verða að halda, sérstaklega þegar þrengir að, því þarna er fólk sem þarf stuðning.

Ég vil nefna í lokin að einnig hefur verið talað um að sameina jafnvel Tryggingastofnun ríkisins og Vinnumálastofnun í nýja vinnu- og velferðarstofnun, en þetta er nokkuð sem fyrirrennari minn nefndi þegar hún mælti fyrir þeim breytingum sem hún stóð fyrir á sínum tíma. Við þurfum líka að skoða nýskipan í örorkumálunum, eins og ég nefndi. Mjög mikilvægt er að huga að öllum þessum þáttum og auðvitað þarf að horfa á þetta allt saman í heild og ekki eðlilegt að verið sé að skoða þetta aðskilið á mörgum stöðum.

Ég þakka umræðuna og mun (Forseti hringir.) gera allt sem ég get til að ná þessu fram á þeim stutta tíma sem ég hef.